fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Hljóp ekkert í gærkvöldi eins og planið hafði hljóðað upp á. Bæði kallaði kuldinn mig ekki út en annað var sem enn frekar hélt mér inni en það var bókin Afturelding. Ég hélt áfram að lesa hana svona seinni part kvöldsins og gat bara ekki hætt fyrr en síðustu blaðsíðu hafði verið flett. Viktor hefur tekist að senda frá sér fínan reyfara sem hefur í sér allan pakkann, drama, svik, flækjur og hræri úr þessi hina bestu spennusúpu. Hátíðasúpu. Enda þótt manni finnist Dalirnir eða Bláfjöllin ekki vara svo sem daglegur vettvangur fyrir svona atburði þá flæðir sagan áfram á mjög trúverðugan hátt. Mæli með henni.

Verður Ísland komið í Evrópusambandið eftir níu ár? Ég held ekki. Hvað kallar á það? Ekkert það ég held eins og staða lands og þjóðar er í dag. Innan Evrópusambandsins eru samankomin flest fátækustu ríki Evrópu. Það verður gríðarlegt verk á næstu áratugum að byggja þau upp og jafna efnahagskerfi þessara landfa þannig að hægt verði að tala um eina samfella heild. Það verður ekkert áhlaupaverk. Ég held að menn ættu að hugsa sig um tvisvar áður en það skerf verður stigið í átt til inngöngu í EU. Hvert er markmiðið, hver er tilgangurinn, hver er ávinningurinn, hver er fórnarkostnaðurinn? Þetta eru lykilspurningar sem verður að svara áður en hægt er að fara að takast á við spurninguna; Skal - skal ekki. Það er spurningin.

Las í gær blogg frá Guðna fréttaritara og kennara í Olsó sem Gísli aðalritari vísaði á. Guðni lýsir þar á skemmtilegan hátt hvernig umræðan í skólanum sem hann kennir við í Osló snerist um áhrif blokkflautukennslu á fjölda djöfla í umhverfinu. Þegar talið var farið að snúast um hvort djöflum í skólastofunni myndi fjölga eða fækka við að hafa gluggann opinn á meðan blokkflautukennslunni stæði, þá þótti kennaranum komið nóg og kennslan var felld niður um stundarsakir. Þetta sýnir í hnotskurn hvaða áhrif svona trúarhópa hafa þegar þeim dettur ekki í hug að að laga sig að umhverfinu heldur vilja að laga umhverfið að sér og sínum viðhorfum. Sá á netinu ágætar teikningar af Múhameð spámanni sem eru teiknaðar af múhameðstrúarmönnum. Þær voru mjög í stíl við teikningar af Kristi. Ég skil því ekki alveg umræðuna um að að sé bannað að teikna myndir af Múhameð.

Göngin til Vestmannaeyja munu kosta 70 til 100 milljarða samkvæmt niðurstöðum nefndar um samgöngumál sem fjallaði um málið. Þetta er upphæð af þeirri stærðargráðu sem mér finnst næsta trúleg. Miðað við að 5 - 6 km Héðinsfjarðargöng kosti um 7 milljarða þá hljóta 20 km jarðgöng sem eru lögð í gegnum virkt jarðskjálfta - og eldfjallasvæði og eiga að liggja út í virkt eldfjall að vera svo milklu miklu dýrari á hvern lengdarmeter en þau sem boruð eru gegnum solid fjöll. Mér finnst það segja meir um fjölmiðlana en Árna Johnsen að honum skuli hafa verið hleypt trekk í trekk í fréttir og Kastljós og Ísland í dag með kostnaðarútreikninga á tveim til þremur A4 blöðum sem sýndu kostnað við göngin upp á 16 milljarða. AÐ vísu vantaði víst inn í útreikningana kostnað við að flytja lausa efnið sem myndast við borunina út úr göngunum en hvað með það.

Engin ummæli: