Ekkert hlaupið í dag. Hvíldardagur. Ætlaði að fara á brautina í Laugardalshúsinu í kvöld en náði því ekki. Var að dorga á Ebay og náði töku. Verðmunurinn er svo svakalegur að það er bara ekki hægt annað.
Var að horfa á Idol keppnina í kvöld. Ég held að þetta sé sterkasti hópurinn sem hefur verið til þessa. Maður á sína tvo til þrjá uppáhaldssöngvara en eftir að hafa horft á þau öll þá er maður bara ringlaður og veit ekkert hver manni finnst hafa verið bestur. Þarna eru krakkar sem hafa allt til að bera að verða alvöru söngvarar, bæði hvað varðar sönghæfileika og útgeislun. Ég sá Hildi Völu á unglingalandsmótinu í sumar og hún er alvöru.
Menn og konur. Þetta er einn orðaleppurinn til. Það er talað um karla og konur. Það er talað um karlmenn og kvenmenn. Maður er ekki karlkenning heldur mannkenning. Homo Sapiens. Um daginn heyrði ég talað hal og víf sem pilt og stúlku. Það er rangt. Halur og víf þýðir karl og kona.
Hlustaði á einhvern fræðing í útvarpinu í kvöld sem gerði ekkisvo mikið úr gildi tungunnar fyrir þjóðina, heldur taldi að þetta ætti allt eftir að breytast því menn færu að skilgreina sig frekar sem Evrópubúa. Þetta er tómt rugl að mínu mati. Maður sér hvernig þjóðerniskenndin er inngróin í fólk enda þótt kynslóðum saman hafi allt verið gert til að afmá þjóðernishugsun. Skoðum Baltnesku ríkin. Í nær þrjár kynslóðir gerðu Sovétmenn altt sem þeir gátu til að afmá þjóðernissérkenni þerra. Sovétmenn voru fluttir til landanna milljónum saman til að blanda þá frumbyggjunum. Síðan á örfáum mánuðum í kringum 1990 hrynur sovéska kerfið og eftir standa Eistar, Lettar og Litháar og hafa aldrei verið neitt annað. Fræðingurinn talaði um íslendinga sem hefðu nýlega flutt til landsins en kynnu málið illa og svo framvegis. Með fullri virðingu fyrir þessu ágæta fólki þá eru þeir ekki íslendingar. Ég var ekki svíi þegar ég bjó í Svíþjóð og ekki dani þegar ég bjó í Danmörku. Íslendingar sem hafa búið áratugum saman í Danmörku líta alltaf á sig sem íslendinga en ekki dani. Af hverju skyldi enn þann dag í dag vera talað um vesturíslendinga? Þjóðerniskennd er af hinu góða ef hún gengur ekki út í öfgar. Það er ekkert voðalega gott að vera rótslitinn og hafa engan bakgrunn.
Leiðinleg orðskrípi glymur oft í sjónvarpinu. Risasmár. Það á víst að þýða StórLítill. Í sænsku er til orðið jätteliten. Jätte þýðir risi og liten þýðir lítill. Jätteliten þýðir agnarsmár. Orðskrípið Risasmár er líklega klambrað saman og þýtt af einhverjum auglýsingastofusnillingnum sem er ekki betri í sænsku en þetta.
föstudagur, febrúar 03, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli