Hverfishringurinn tekinn í gærkvöldi. Frost og stilla og prýðis hlaupaveður. Var seinn fyrir og kom ekki inn fyrr en um 030. Jói og félagar hans í Víking voru að spila handbolta í Laugardalshöllinni í gærkvöldi svo kvöldinu var ráðstafað við að horfa á þá og spjalla við kunningja okkar úr foreldrahópnum. Foreldrar mæta vel á leiki hjá þessum hóp og standa bak við þá og myndast hefur kunningsskapur með okkur gegnum tíðina. Jói kallinn varð reyndar 17 ára í gær. Þegar hann fæddist var allt á kafi í snjó og tengdamamma festi bílinn úti á miðri götu um miðja nótt þegar hún kom að vera hjá eldri stráknum á meðan við skruppum á fæðingardeildina.
Það hefur verið nokkur umræða um hádegismat í grunnskólum að undanförnu. Eins og svo oft er hún töluvert ruglingsleg og þróast út í einherja öfga. Í fjölmiðlum heyrir maður að foreldrar um 30 - 40% barna í grunnskólum hafi ekki efni á að kaupa sér mat í hádeginu. Það er náttúrulega ekki rétt. Maður heyrir hins vegar of oft í umræðunni við krakkana um matarmiðakaup að maturinn sé vondur. Ég veit það ekki af eigin raun og ætla ekki að taka það of alvarlega en hitt veit maður að það er hægt að hantera og bera mat fram á mismunandi aðlagandi hátt. Krakkar eru oft einnig tregir til að smakka það sem þau þekkja ekki. Einnig er það ljóst að ef matur er keyptur frá stóreldhúsum þar sem hann er framreiddur í svona verksmiðjustíl að þá er hann ekki jafn lystugur og heimalagaður. Það er nefnilega margar hliðar á svona máli. Ég held að það sé alls ekki lausnin að hafa matinn algerlega ókeypis. Það er borin miklu minni virðing fyrir því sem er algerlega ókeypis af þeim sem notar vöruna. Miklu mikilvægara er að leggja alúð við gæðin þannig að maturinn verði lystugur og eftirsóknarverður. Þá kemur hitt af sjálfu sér. Ef einhverjir eru svo illa staddir að þeir getir ekki greitt fyrir hann þá krefst það sérstakra aðgerða. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að krakkar í grunnskólum fái almennilegan mat í hádeginu eins og annað vinnandi fólk.
Hvað mat og framleiðslu hans varðar þá vann tengdamamma eitt sinn ásamt nokkrum jafnöldrum sínum í mötuneyti í á heimili fyrir aldrað fólk. Þær elduðu venjulegan heimilismat fyrir gamla fólkið og allri voru ánægðir með það. Síðan kom að því að það þurfti að spara og maturinn var keyptur frá stóreldhúsi en konurnar sáu áfram um að framreiða matinn. Sú venja hafði skapast að þær tóku oft smáleifar með sér heim fremur en að henda þeim. Eftir að farið var að kaupa matinn úr stóreldhúsinu þá var það á stundum svo að tengdaspabbi gat ekki borðað matinn sem komið var með heim. Hann var hreinlega ólystugur og vondur á bragðið. Matvendni er hins vegar hugtak sem tengdapabbi hefur ekki notað mikið um æfina.
miðvikudagur, febrúar 08, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli