fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Hljóp ekkert í gær. Varð seinn fyrir og svo rigndi þannig að ég frestaði þessu. Tók hringinn þess í stað kl. 6 í morgun í fínu veðri.

Leikurinn í gær var fínn og spennandi. Synd að strákarnir skyldi draga stutta stráið en svona er þetta. Sama er, frammistaða liðsins er búin að vera frábær, sigra Rússa og Serba, gera jafntefli við Dani og tapa með einu marki fyrir Króatíu sem eru ólympíumeistarar. Nú bíða Norðmenn í dag.

Hlustaði á Pétur Blöndal og Mörð í sjónvarpinu í morgun. Ég var sammála Pétri í einu og öllu í því sem hann sagði í morgun. Vitaskuld á það fólk sem flytur til einhvers lands að aðlaga sig að siðum landsins í stað þess að heimta að landið aðlagi sig að siðum innflytjandans. Mörður var hins vegar á þessari fjölmenningarlegu umburðarlyndislínu eins og kratarnir í kringum okkur. Það er alltaf byrjað að klifa á því að móttökusamfélagið eigi sök á því ef innflytjendur aðlagist ekki því landi sem þeir flytja til. Þannig er byggð upp sektarkennd hjá innfæddum og þeir fara að láta eftir allskonar sérkröfum og öfgum. Ég veit ekki hvernig er hægt að taka betur á móti innflytjendum heldur en gert var í Danmörku og Svíþjóð hér á árum áður. Það stóðu þeim allar dyr opnar, menntun, húsnæði, vinna og peningar í boði. Það þýðir hins vegar ekki að líta fram hjá því að það er gríðarlegur munur og oft órúanlegt bil á milli menningarheima þessa fólks og okkar. Þrátt fyrir áratugabúsetu fólks úr arabalöndum í Danmörku og Svíþjóð viðgangast enn heiðursmorð á stelpum sem ekki hlýta ægivaldi karlanna í fjölskyldunni. Ef stelpan fer sínar eigin leiðir í vali á kunningjum og kærustum þá birtist það pabbanum, bræðrum hennar og frændum sem ólýsanleg niðurlæging. Þeir verða að athlægi annara karla ef þeir láta þetta óátalið. Niðurstaðan er þannig því miður stundum sú að þeir drepa viðkomandi stelpu (dóttur, systur og frænku) til að halda ærunni. Slík heiðursmorð hafa komið fyrir í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Ég sá nýlega í sænskum blöðum að það væru milli 10 og 15 þúsund stelpur í Svíþjóð sem væru í meiri eða minni vandræðum vegna þessara gömlu viðhorfa. Þarna sýnir sig menningarheimur sem við skiljum ekki og viljum ekki að viðgangist. Eigum við að sýna umburðarlyndi gagnvart þessum siðum og hefðum? Það er þegar farið að brydda á því hérlendis að svínakjöt megi ekki vera á matseðli grunnskóla. Eigum við að láta aðra menningarheima stjórna því hvað við eða börnin okkar borðum? Það verður að tala um hlutina eins og þeir eru en ekki vera að fjasa um einhverja yfirborðsfroðu sem leiðir okkur ekkert annað en í sömu stöðu og dönsk og sænsk samfélög eru í.

1 ummæli:

kókó sagði...

Ég er sammála því að innflytjendur verða að aðlaga sig ríkjandi samfélagi. Þetta á líka við þegar flutt er milli landshluta en rígur og fleira getur gert fólki erfitt fyrir. Líka í tengdafjölskyldum...
Við sem móttökuland eigum þó að gera innflyjendum mögulegt að aðlagast. Svo sem með ódýrri og aðgengilegri íslenskukennslu, kenna á siði, lög og reglur.
Svínakjöt er óhollt - sakna þess ekki af matseðli grunnskólans. Þá er nú vestfirska fjalla- og fjörulambið betra :)