laugardagur, febrúar 26, 2005

Föstudagurinn hófst með magadansi við setningu flokksþings framsóknarmanna. Sá að sumir klöppuðu ansi linlega á meðan aðrir voru hrifnir. Flutti tillögu til breytingar við lög flokksins um að heimild væri veitt til að hafa eitt kjördæmasamband í Reykjavík þannig að hægt sé að opna umræðu um hvort eigi að breyta þeim bastarði sem er hjá Framsóknarmönnum í borginni þar sem lög flokksins kveða á um að kjördæmasamband skuli starfa æí hverju kjördæmi en ekkert tillit tekið til þess að höfuðborgin Reykjavík er eitt áhrifa- og hagsmunasvæði. Gaman verður að sjá hvort varðhundarnir vakni ekki og grípi til varna.

Annars var þingið fínt og fjörugar umræður. Margir lýstu fordæmingu á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið innan flokksins að undanförnu þar sem félög hafa verið sjanghæjuð korteri fyrir aðalfund og fleira sem hægt væri að nefna. Ekki á ég von á að þessar ræður breyti neinu.

Braut meginreglu og fór út á föstudegi til að ná upp hluta af því því sem glataðist í kvefperíódunni. Fór 8 km í hverfinu fyrir kvöldmatinn. Fengum góða gesti í kvöldmat þar sem margt var spjallað og kvöðdið leið fljótt. Fyrir svefninn horfði ég á hluta af DVD diski sem ég fékk frá WS 100 sem heitir Running Madness. Viðtal var við þann sem fyrstur hljóp WS 100 leiðina, þegar hesturinn hans veiktist. Um miðja leið var hann orðinn svo þreyttur að þá snerist hugsunin einvörðungu um að færa hvorn fót fram fyrir hinn til skiptis. Hann komst að lokum alla leið á góðum tíma. Þetta staðfestir það sem ég hef heyrt haft eftir Grænlendingum. Þeir segja að þegar maður er orðinn svo þreyttur af að brjótast áfram í snjó og ófærð að maður hnígur niður og getur sig hvergi hreyft, þá sé maður búinn að fara ca helminginn af þeirri leið sem maður hefur orku til að fara.

Engin ummæli: