miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Fór út í kvöld á hefðbundinn túr. Það var öklasnjór alla leiðina svo maður fór hægt og æfði hnébeygjurnar. Þetta er allt í lagi meðan að það er ekki rok og leiðindi. Ég hef gert ráð fyrir að janúar til mars fari fyrst og fremst í að byggja upp þol og styrk. Þegar fer að hlýna fer maður að taka vandaðri æfingar, svo sem hraðaæfingar og brekkuhlaup í Esjunni. Á þann hátt sem við höfum hlaupið frá áramótum er enginn vandi að ná upp í ujm 90 km á viku án áreynslu. Tvö löng hlaup um helgar og síðan þrjú stutt í miðri viku gera 85 - 90 km. Ég sé að í Bandaríkjunum er ekki síður almennt notast við að mæla hlaup í klukkutímum. Það er lögð megináhersla á þann tíma sem menn eru á ferðinni en ekki endilega þá vegalengd sem lögð er undir fætur. Maður er svo íhaldssamur að enn er þrjóskast við að mæla vegalengdir í kílómetrum en líklega er klukkutímaaðferðin skynsamlegri. Eitt af því sem maður þarf að tileinka sér er að vera óhræddur við að ganga innanum og saman við. Í svona löngum fjallahlaupum er gengið mikið og eins þegar fer að líða á er gott að vera vanur að geta gengið hratt þegar hlaupagetan hefur minnkað.

Fór í Nautilus í kvöld í fyrsta sinn. Þetta var svona kynnisferð og ég fékk snögga yfirferð á tækin. Ég þarf fyrst og fremst á styrkingu á fótum og magavöðvum að halda svo ég fékk ábendingar um tæki og aðferðafræði. Ég hef aldrei fyrr fengið mér tíma á alvöru líkamsræktarstöð (ef þessi er alvöru) en mér leist bara nokkuð vel á hana. Ég veit að fyrir utan að styrkja sig þá kemur manni vel að hlaupa inni í ca 20 gráðu hita því það er eitt sem maður þarf að gera þegar líður á. Þegar aðrir fara út að hlaupa þá þarf ég að fara inn um tíma. Ég veit að ef ég sinni þessu almennilega þá gerir þetta gagn. Til að einhver árangur náist þarf ég að fara að minnsta kosti 3svar í viku.

Náði smá árangri í að betrumbæta síðuna. Maður lærir smátt og smátt aðferðirnar og klækina við að nappa frá öðrum.

Það eru tíðindi sem berast frá Danmörku. Einir fjórir flokksformenn ætla að segja af sér í kjölfar kosninganna. Þar í landi segja formenn af sér eða þeim er velt af stólnum ef þeir tapa. Hér er þessu öfugt farið. Allt bendir til að formaður sem vann stóran kosningasigur í síðustu alþingiskosninugm verði settur af bara si svona.

Engin ummæli: