þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Fór 12 km. í kvöld í heldur leiðinlegu færi en sama er, planið blífur. Ég fékk tvær bækur í dag frá Amazon.com. Önnur er um þjálfun almennt en hin inniheldur frásagnir af ultramaraþonum. í þjálfunarbókinni rakst ég á eftirfarandi punkta sem eru undirstaða að markmiðssetningu fyrir hlaupara:

1.Einbeittu þér að því sem þú getur (frekar en að því sem þú getur ekki).
2. Skilgreindu langanir og þrár.
3. Settu þér markmið sem þig langar mikið til að ná.
4. Hafðu markmiðið eins raunsætt og mögulegt.
5. Skilgreindu markmiðið það vel að þú getir áttað þig á hvort þú færist nær því að ná því eða ekki.

Síðan las ég frásögn eftir einn sem ætlaði að fara Grand Slam árið 1998, en það er að fara fjögur 100 M hlaup á sama sumrinu. Hann þurfti að hætta í síðasta hlaupinu en bætti um betur sumarið eftir og fór sex 100 mílna hlaup, hvert og eitt með ca mánaðar millibili. Það er svokallað LGR eða Last Great Race. Svo er maður eitthvað að mikla fyrir sér að fara eitt!!!

Heyrði í fréttum í kvöld að einhverjar konur ætla að fylgjast með því hvort konur verði kosnar til áhrif á aðalfundum fyrirtækja og lífeyrissjóða á komandi vikum og mánðum. Í vor á að taka stöðumat. Hvað ef ekkert hefur gerst? Mun þá eitthvert Lísisströtusyndróm flæða yfir samfélagið? Kannski. Ég sit ekki í neinni stjórn. Svo mun einnig vera um ca 50 þúsund aðra kalla á landinu. Á meðan sitja sumir kallar sitja í allt að 30 stjórnum. Eigum við þessir 50 þúsund stjórnarsetulausu kallar að fara að sífra um þetta óréttlæti í fjölmiðlum. Ég efast um að það yrði hlustað mikið á okkur. Ef mig langaði mikið til að komast einhversstaðar í stjórn teldi ég mig þurfa að vinna fyrir því, sannfæra aðra um að ég væri hæfari en aðrir, ryðja öðrum til hliðar og svo framvegis. Í stuttu máli sagt; Berjast fyrir frama mínum í stað þess að væla utan í fréttamenn og heimta að aðrir reddi málunum fyrir mig. Ég held hins vegar að ég nenni því ekki. Það er svo margt annað skemmtilegra að gera.

Er ánægður með að Anders Fogh Rasmussen hélt velli í Danmörku í kvöld. Þegar ég bjó í Danmörku fyrir um 20 árum síðan voru Venstri frekar lítill hægrisinnaður bændaflokkur sem átti afar lítið fylgi í Kaupmannahöfn. Með vönduðum og markvissum vinnubrögðum hefur flokknum tekist að verða stærsti flokkur Danmerkur. Þetta mættu ýmsir taka sér til fyrirmyndar. Lykketoft ætlar að segja af sér eftir ósigurinn. Það er hin rétta afstaða, taka tapinu eins og menn.

5 ummæli:

yy sagði...

Prufa

yy sagði...

Önnur prufa

Bibba sagði...

Hæ. Það var nú meira bullið að komast inn í þetta, ma'r. Ég er búin að skrá mig sem alla hugsanlega notendur sem mér datt í hug og alltaf kom að þetta username væri frátekið. Vefurinn hefur nú samt skráð mig því að næst þegar ég fór inn fékk ég þennan fína glugga til að skrifa í og neðst stendur : Posting As: Bibba :)

En það sem ég vildi segja : velkominn í hóp hinna frásagnarglöðu :). Ég hlakka verulega til að fylgjast með þjálfuninni hjá þér. Mér sýnist þér vera að takast betur en mér að halda æfingaáætlun, og markmiðin eru einbeittari og skýrari... ætla að taka þetta mér til eftirbreytni.

Ásgeir bað mig að benda þér á að það væri kannski sniðugt að láta vita fyrirfram hvað þú ætlar langt daginn eftir og á hvaða hraða (fyrir laugar- og sunnudagana) uppá ef einhverjum skyldi detta í hug að trítla með alla leið.

Svo langar mig að vita hvernig er með stuttu æfingarnar hjá þér... ertu með einhverjar hraðaæfingar þar ? Á hvaða tempói ertu að taka þær ?

Bestu kveðjur,
Bryndís

yy sagði...

Þetta hlaut að takast, þetta var ekki svo flókið.

Kv.

Gunnl.

Bibba sagði...

Jú sko vefurinn virðist muna hvort maður er skráður notandi, þannig að þú fékkst öðruvísi skráningarglugga en ég.