Hvíldardagur í dag. Setti inn hæðar- og lengdarmælingu af laugardagshlaupinu sem Halldór tók út af Garminum sínum. Textinn er að vísu óskýr en gefur aðeins hugmynd um hæðarlínur hlaupsins.
Sótti í morgun upp á tollstöð póstsins á Stórhöfða DVD disk sem ég pantaði á WS100 vefnum. Hann fjallar um hlaupið 2001 og heitir A Race For the Soul. Þetta eru tveir diskar, annar með rúmlega 50 mínútna mynd og hinn með ítarefni, lengri samtölum og frásögnum af hlaupinu. Manni líður ekkert alltof vel að horfa á myndina en að sama skapi er það mjög gagnlegt. Maður fær þá smá tilfinningu fyrir því hvers er að vænta meðan á því stendur. Á þessari leið sem hlaupið liggur um var upphaflega haldið keppnishlaup á hestum. Síðan var það eitt sinn að hestur eins veiktist rétt fyrir ræsingu og knapinn gerði sér lítið fyrir og hljóp alla leiðina frekar en að missa af túrnum. Það kom mönnum á sporið með að hefja keppnishlaup á brautinni. Í fyrsta hlaupinu sem haldið var árið 1977 voru 14 þátttakendur. Í myndinni A Race For the Soul er sagt frá þreytu, hita, blöðrum á fótum, mörðum nöglum, átökum hlauparanna við sjálfan sig og brautina, sigrum og ósigrum. Brautin er víða grýtt og ekki óalgengt að hlauparar detti og meiði sig. Á drykkjarstöðinni Devils Thumb (sem ber nafn með rentu) er fólk farið að detta út sökum þreytu en þá eru 50 mílur eftir. Það reynist mörgum erfitt. Myndin sýnir manni vel að til að eiga möguleika á að takast á við þetta af einhverri alvöru þarf að kosta til blóði, svita og tárum. Þetta er enginn leikskóli heldur alvöru. Þeir sem eru á seinni skipunum þurfa að hlaupa um 20 mílur í niðamyrkri við vasaljós, oft á ósléttum stígum og yfir ár að fara. Fyrsti hlauparinn kom í mark á 16.38.00. Einn sem komst í mark sagðist vera með þrjár neglur lausar í skónum og vafalaust ekki sá eini. Rætt er við og sagt frá konu sem er að fara í sitt níunda hlaup í þeim tilgangi að reyna að klára hlaupið. Hún hafði dottið út í öll hin átta skiptin, í eitt skiptið á mílu 98. Því miður komst hún ekki heldur í mark árið 2001. Hjónum er fylgt sem kynntust í brautinni nokkrum árum áður og fóru nú saman. Þau náðu marki á 29.58.30 eða einni og hálfri mínútu áður en hlaupinu var lokað. Síðan er sýnt frá konu sem er að berjast við að ná undir 30 klst en kom í mark 52 sekúndum yfir tilskyldan tíma. Live is a bitch.
Sá í helgarblaði DV yfirlit um þau hús á Laugaveginum sem fyrirhugað er að rífa. Ég skil ekki hvernig á að vera hægt að byggja upp almennilegt og viðunandi verslunar- og borgarumhverfi úr aflóga bárujárnskumböldum, flestum ljótum, lélegum og leiðum. Megi þau fara sem flest.
mánudagur, febrúar 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli