föstudagur, febrúar 04, 2005

Hljóp um 8 km í gærkvöldi. Sem betur fer var hætt að snjóa svo þetta var bara þægilegur túr. Svo hlýnar hann aftur um helgina, mér er heldur illa við snjó fyrir neðan 300 metra hæðarlínu.

Var fundarstjóri á 60 - 70 manna félagsfundi hjá Framsóknarfélagi í RvkS þar sem voru valdir fulltrúar á flokksþing. Heldur kjánalegar umræður höfðu átt sér stað í fjölmiðlum fyrir fundinn um að hann yrði líklega vettvangur mikilla átaka. Ríkið sendi meir að segja eftirlitsmann á staðinn með upptökuvél til að mynda átökin þegar þau hæfust. Hann fór þó fljótlega þegar ljóst var að mikil eindrægni ríkti á fundinum og tillögur stjórnar samþykktar samhljóða.

Ég varð fyrir vonbrigðum í gær þegar fréttir bárust af því að það megi ekki sjónvarpa sendingum frá enska boltanum án þess að einhver sjálfskipuð innlend gáfumenni séu að fimbulfamba um þar sem er að gerast á vellinum. Mér finnst munurinn á því að horfa á enska boltann með enskum þulum og íslenskum vera svipaður og að horfa á mynd í lit og í svarthvítu. Eg fékk ókeypis áskrift að einhverjum 40 stöðvum á digital Ísland í desember. Talið í þeim var allt á útlensku, mismunandi eftir því frá hvaða landi var sent. Má maður búast við talsetningu á þessum stöðvum í framtíðinni? Ég held ekki. Mér finnst málið tiltölulega einfalt. Ef eitthvað er sent út á útlensku sem enginn skilur og enginn vill horfa á þá verður áhorfið ekkert og enginn vill auglýsa. Málið er dautt. Ef eitthvað er sent út á erlendu máli sem mikill áhugi er fyrir en enginn skilur þá er mikið kvartað og eitthvað gerist í framhaldinu. Ef eitthvað er sent út á erlendu máli sem mikið er horft á og allir eru ánægðir með (nema einhverjir sem missa peningalegan spón úr aski sínum) er þá ekki bara allt lagi?

Ég hef verið að lesa á netinu frásögur hlaupara sem hafa farið WS100. Þetta eru spennandi lýsingar á því hvernig þessum einstaklingum tekst að sigra erfiðleikana og ná settu marki. Oftast er takmarkið bara að komast í mark undir 30 klst en í sumum tilvikum er verið að berjast við að rjúfa 24 klst múrinn. Þessar frásagnir er að finna a www.run100s.com/reports/. Það er ekki laust við að það rísi á manni hárin á stundum við lesturinn, en á hinn bóginn er mikið gagn af því að lesa þessar frásagnir því maður hefur þá aðeins meiri hugmynd um hvað bíður manns þegar á hólminn er komið. Einnig er mjög fróðlegt að fá hugmynd um hvernig menn undirbúa sig, hvað er sent út á brautina, hve oft þarf að skipta um skó, hvað fólk hefur með sér á milli drykkjarstöðva og svo framvegis. Vonandi kemur þetta allt að gagni á sínum tíma.

Engin ummæli: