Ekkert hlaupið í dag eins og planið segir. Eins gott þar sem veðrið er heldur leiðinlegt. Ég held að það sé ótvírætt hvað það skilar sér betur að taka löng hlaup laugardag og sunnudag (eða tvo daga samfleitt) heldur en með nokkurra daga millibili. Ég tók nýlega saman yfirlit um hvað ég hef hlaupið af löngum hlaupum á síðustu árum. Með löngum hlaupum á ég við hlaup yfir 20 km. Það er mesta furða hvað þetta hefur aukist og einnig er furða hvað maður hljóp lítið af löngum hlaupum fyrir tiltölulega fáum árum. Listinn er sem hér segir(ég kann ekki að setja töflu inn í textann þannig að þetta verður að nægja):
2001 15 sinnum yfir 20 km
2002 18 sinnum yfir 20 km
2003 31 sinni yfir 20 km
2004 58 sinnum yfir 20 km
2005 10 sinnum yfir 20 km
Ég fór í kvöld á myndakvöld hjá Útivist. Þar voru sýndar myndir frá nágrenni Siglufjarðar, af hinum eina og sanna Tröllaskaga. Skemmtileg gönguleið er yfir Hestskarð og í Héðinsfjörð, þaðan út í Hvanndali og til baka og síðan á þriðja degi til Ólafsfjarðar. Ég hef undanfarin þrjú sumur verið góða helgi á Siglufirði í ágústbyrjun á Pæjumótinu. Siglfirðingar standa mjög vel að mótinu. Tvö ár af þesum þremur hefur veðrið verið eins og best hefur verið á kosið, en í hitteðfyrra var ansi kalt. Fyrsta árið skrapp ég yfir í Héðinsfjörð um Hestskarð, svona til að geta sagt að ég hefði séð fjörðinn. Í fyrra hljóp ég meira, einn daginn hljóp ég tvisvar út í göng í einum rykk sem var samtals um 24 km með góðum brekkum. Daginn eftir var um 3 og hálfur tími milli leikja hjá Víkingsstelpunum sem dóttir mín spilar með. Þá hljóp ég sem leið lá út í gegnum göngin og inn hlíðina, upp í Siglufjarðarskarð og síðan á spretti niður að Hóli þar sem dómarinn var að flauta til næsta leiks þegar ég kom niður að vellinum. Þetta var um 33 km hringur með hækkun tæplega um 650 metra upp í skarðið. Hlíðin var seinfarin vegna þess hve mikið er að brekkum á henni. Þetta var skemmtileg leið og ef einhver er staddur á Siglufirði og stendur þannig á spori að hann hafi svona 3,5 klst aflögu þá er þetta prýðileg aðferð til að nota tímann.
mánudagur, febrúar 07, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli