fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Ekkert hlaupið í gærkvöldi heldur en nú fer þetta að koma. Það er ekki hægt að sitja af sér svona gott veður lengur. Sá á hlaupasíðunni að hópur vaskra manna ætlar í ævintýraferð til Grænlands í sumar þar sem keppt verður í 5 daga í hlaupum, klifri, fjallgöngu og ég veit ekki hverju. Þetta er glæsilegt og verður gaman að fylgjast með þeim félögum. Það er gaman að sjá hvað víða eru nýir angar að skjóta upp kollinum innan skokk- og hlaupageirans. Fjalla- og utanvegahlaupafélagið, þríþrautarfólk og félag 100 K hlaupara eru góð dæmi þar um. Mitt mat er að það félagslega starf sem sjálfboðaliðar inna af höndum hvort sem er að standa fyrir hlaupum, halda utan um félagsstarf eða halda úti heimasíðum sé sá jarðvegur sem er forsenda þess að uppskeran verði bæði fjölbreytt og mikil. Þótt mér hefði svo sem einhvern tíma tekist að skrönglast svo sem eitt maraþon þá hefði að líkindum aldrei orðið meira úr því ef ekki hefði verið til staðar hinn ágæti félagsskapur Félag maraþonhlaupara sem gefur óhörnuðum bæði styrk og stuðning til frekari átaka. Í þessum skokkgeira er að finna gerjun sem er afskaplega merkileg og hefur víða þróast á hinn ólíklegasta hátt. Maður þekkir marga einstaklinga sem hafa gjörbreytt um lífsstíl og öðlast nýtt líf eftir að hafa byrjað að tölta úti á gangstígum í góðum félagsskap og síðan eitt leitt af öðru. Ég held að það sé í sjálfu sér miklu meira afrek og meiri sigur fyrir fólk sem ekki hefur hreyft sig að marki stærstan hluta æfinnar að hlaupa 10 km í fyrsta sinn heldur en fyrir nokkuð vanan skokkara að hlaupa heilt maraþon í fyrsta sinn. Í þessu sambandi er rétt að minnast á það að ég sótti í fyrra um inngöngu fyrir UMFR36 í UMFÍ og ÍBR sem hlaupafélag sem hefur innan sinnan vébanda mjög öfluga langhlaupara. Þess var ítarlega gætt að öll formlegheit varðandi lög félagsins væru á hreinu. Viðbrögðin voru mjög fyndin. Svörin voru nokkuð samhljóða í hártogunar- og útúrsnúningastíl og þrautalending ÍBR var að segja að nafn félagsins samræmdist ekki reglum þess varðandi nafngiftir aðildarfélaga. Þrátt fyrir beiðni þar að lútandi hefur mér ekki tekist að fá téðar reglur um nafngiftir aðildarfélaga sendar. Mér finnst þetta dálítið bera keim af því að ef íþróttafólk þarfnast ekki fjárfestinga upp á mörg hundruð milljónir til að geta stundað íþrótt sína, þá séu þeir ekki svo ýkja merkilegir. Eða hvað á maður að halda?

Engin ummæli: