laugardagur, febrúar 19, 2005

Hitti Pétur og Halldór úti í Fossvogsbotni í morgun á venjulegum tíma. Ég hef tvo síðustu daga verið að berjast við hvort ég myndi kvefast eða ekki. Hafði á tilfinningunni í morgun að ég væri að tapa þeirri baráttu enda hálf slappur. Var búinn að undirbúa mig undir að láta félagsskap þeirra lönd og leið í dag og lulla eitthvað upp á eigin spýtur. Ég hresstist allur við þegar við hittumst og við lögðum af stað sem leið lá gegnum Kópavog og Garðabæ út á heimiliströppurnar á Bessastöðum. Það voru sléttir 15 km af minni stétt út á tröppur Ólafs. Síðan héldum við til baka í gegnum Garðabæinn og Smáralindina og yfir í Fossvog og fór svo hver til síns heima . Ég var orðinn hálf linur undir það síðasta en þetta var fínn túr í góðu veðri. Maður svitnaði svakalega og ég held að ég hafi drukkið um 2 lítra á leiðinni. Alls lagði ég 30 km undir sóla.

Ég minntist í fyrradag á kanadíska konu sem ætlaði að hlaupa 22 100 M haup á einu ári. Það er makalaust hvað hægt er að leggja á skrokkinn. Fyrir þremur árum las ég í dönsku blaði um dana sem ætlaði að hlaupa 100 maraþon á einu ári. Það fór alt vel af stað en svo hafði það komist inn í hausinn á mér að hann hefði fengið hjartaáfall og dáið í ágúst, eftir um 60 þon. Þetta var ég búinn að segja hlaupafélögum hér heima. Í fyrra þegar ég fór til Borgundarhólms þá tók ég strætó af Ráðhústorginu niður í Sydhavn þar sem ferjan leggst að. Í strætónum var einn annar farþegi, eldri maður, hvíthærður og skeggjaður. Hann sá að ég var hlaupalega búinn og við tókum tal saman. Ég sagðist vera að fara í 100 K hlaupið um helgina en hann sagðist ætla að taka þátt í 4 x 25 km boðhlaupinu . Hann spurði hvað ég hefði hlaupið mörg maraþon og ég svaraði því og var bara sæmilega ánægður með mín tæplega 20. Þegar ég spurði hann að hinu sama þá sagði hann 120. "Úps" sagði ég "Á hvað löngum tíma?" Það voru ekki mörg ár sagði hann, því hann hafði hlaupið 102 þon á einu ári fyrir tveimur árum. Þarna var kallinn sjálfur ljóslifandi kominn og alveg ódauður. Hann var undrandi en svolítið ánægður yfir þegar ég sagðist hafa frétt af þessu afreki hans alla leið upp til Íslands og þekkti þannig til hans. Ég sagði honum reyndar ekki frá því að fréttir af ótímabærru andláti hans hefðu borist yfir hafið. Afrek hans er nú reyndar markmið sem ég vildi ekki hvetja neinn til að leika eftir.

Dagurinn 19. febrúar er tvöfaldur hátíðisdagur. Á þessum degi fyrir 22 árum vaknaði ég upp morgun einn að Flogstavagen 41 í Uppsölum í Svíþjóð og uppgötvaði að reykingademóninn var horfinn. Ég hafði reykt af og til um tæplega 15 ára skeið, stundum meira og stundum minna og hætt stundum af og til. Alltaf byrjaði maður aftur og sífellt var erfiðara að hætta. Ég var farinn að sjá fram á það að um fimmtugt yrði ég gulleitur Camelmaður sem vildi gjarna hætta að reykja en gæti það ekki fyrir nokkurn mun. Ég þekkti þá nokkurn hóp slíkra manna sem flestir eru látnir í dag, það sem kallað er fyrir aldur fram. Svo var það morguninn 19. febrúar 1983 að ég vaknaði upp eftir kenderí kvöldið áður eins og þá var gjarna gert meðal námsmanna. Einhverra hluta þá langaði mig ekki vitund til að fá mér að reykja þarna um morguninn þrátt fyrir að hafa gert það svikalaust kvöldið áður eins og önnur kvöld og aðra daga á þesum tíma. Mig hefur aldrei langað til þess síðan. Ég tók einn smók af sígarettu nokkrum árum síðar í gleðskap í Kaupmannahöfn og ég man það vel enn í dag hvað mér þótti bragðið ógeðslegt. Svona var þetta.

Nákvæmlega tíu árum síðar, þann 19. febrúar 1993, kom önnur ástæða til að halda upp á 19. febrúar en þá fæddist María Rún sem fyllti 12 ár í dag. Hún hélt meðal annars upp á daginn með því að spila í úrslitakeppni 5 flokks í fótbolta með Víkingum í Víkinni. Þær enduðu í fimmta sæti og voru bara sáttar við daginn.

Engin ummæli: