Tók daginn snemma og lagði af stað um 8.30 í 11 stiga frosti. Mætti Halldóri og Pétri við göngubrúna út við Fossvog. Við fórum sem leið lá út fyrir Kársnes og inn Kópavoginn. Fórum síðan þvert yfir Smáralindina, gegnum undirgöngin og upp brekkuna. Síðan lá leiðin suður að Vífilsstöðum og þar inn til hægri. Þar beið góð brekka upp á 1,6 km sem tók í. Síðan var skokkað fram hjá Vatnsendahæðinni og yfir Breiðholtsbrautina og inn á Poweratehringinn. Þaðan héldum við fram hjá Árbæjarlauginni og niður Elliðaárdalinn. Þar sem ekki var komið nóg fylgdi ég þeim út að Nauthól og fór þaðan til baka. Alls gerði túrinn um 35 km. Þessi leið er góð með hæfilegri blöndu af brekkum og jafnsléttu. Síðan hefur hún þann kost að maður verður að hlaupa langt til að komast heim. Það er ekki hægt að svindla.
Ég hef frá áramótum hlaupið með drykkjarpoka á bakinu. Ég keypti hann á útsölu í útilífsbúð uppi á Stórhöfða í haust á 1000 kall. Mér finnst virkilega gott að hlaupa með hann. Maður tekur ekkert eftir honum, maður hefur nóg að drekka en hann tekur milli 2 og 3 lítra. Bara að passa sig á að beygja sig ekki áfram því þá rennur niður í hálsmálið. Síðan er stærsti kosturinn að vatnið hitnar svo maður drekkur alltaf moðvolgt vatn í kuldanum. Það er gríðarlegur kostur. Ég drekk ekki undir 1,5 lítrum á svona löngum túr eins og í dag þannig að það er eins gott að hafa nóg pláss.
Ég fór í Hagkaup eftir hádegið og rakst þar á konu sem var að kynna sælgæti að því mér sýndist. Þegar ég tók bita sagði hún aftur á móti að þetta væri megrunarbiti. Það væri svo miklu betra að borða þetta í hádeginu en t.d. súkkulaði. Síðan átti að drekka mikið vatn með og borða kolvetnalausa fæðu og þetta væri óbrigult ráð til að grennast. Ég skoðaði innihaldslýsinguna og sá að kolvetnin voru um 50 g af hverjum 100. Ég sagði henni að mér fyndist þetta vera hæpinn megrunarbiti með svona miklu sykurinnihaldi. Jú þetta er allt í lagi sagði konan, þetta er nefnilega náttúrulegur sykur. Þegar ég lét enn í ljós vantrú mína tók hún til bragðs að horfa í gegnum mig eins og ég væri ekki til, líklega í von um að fá auðsveipara fórnarlamb.
Þegar maður hleypur fram hjá Nauthól kemur gömul saga upp í hugann. Ég greip í desember niður í æfisögu Eyjólfs sundkappa sem kom út fyrir jólin. Eyjólfur er merkur maður, hann var lögregluþjónn um áraraðir, gríðarlegur sjósundskappi og var síðan einn af stofnendum Þróttar svo fátt sé tiltekið. Hann segir frá því í bókinni að forfeður hans, líklega afi hans og amma, bjuggu á Nauthól fyrir aldamótin 1900. Jörðin var þá lítið þurrabúðarbýli. Umræða hafði komið upp að gera höfn í Fossvoginum og því þurfti að losna við fólkið af jörðinni. Þegar húsbóndinn var á sjó eitt sinn gerðu broddborgarar Reykjavíkur árás á bæinn og húsin voru brennd til grunna og fólkið flæmt burt. Báru þeir fyrir sig að taugaveikibaktería væri í húsunum. Segir frá því í bókinni að ung stelpa um 11 ára gömul hafi sloppið upp í Öskjuhlíðina og falið sig þar á meðan á ódæðinu stóð. Eyjólfur lætur að því liggja að hún hafi aldrei orðið söm eftir. Hún varð seinna þekkt sem Jósefína spákona í Djöflaeyjubókunum. Frásögnin festist í mér vegna þess að dóttursonur Eyjólfs og nafni hans býr hér rétt hjá í Rauðagerðinu og er í hljómsveit með stráknum mínum. Hann sýndi þann kraft að koma syndandi að landi við Bessastaði afa sínum til heiðurs þegar bókin var kynnt í haust en sá gamli hafði oft synt af Ægisíðunni yfir að Bessastöðum. Dorrit faðmaði hann að sér blautan úr sjónum og strútvafði hann síðan í teppi svo ekki slægi að honum.
laugardagur, febrúar 05, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli