mánudagur, febrúar 21, 2005

Nú var ekkert hlaupið í dag enda hvíldardagur. Kvefið er vonandi á undanhaldi en miðar ekki nógu hratt, Það er mjög gott að hafa hvíldardaga eftir ákveðnu kerfi, maður hefur þá eitthvað til að miða sig við og mætir úthvíldur til leiks að þeim loknum. Sá á hlaupavefnum að fjalla- og utanvegafélagið ætlar að leggja í utanvegahlaup frá Hafnarfirði á laugardaginn. Það gæti verið gaman að slást í hópinn. Það verður reyndar róleg helgi hjá okkur samkvæmt planinu því síðan taka við tvö maraþon í mars. Nauðsynlegt er að hylla formanninn á afmælisdegi og síðan bíður hið fornfræga marsmaraþon. Utanvegahlaup eru víða mikið stunduð erlendis. Breska konan sem sigraði Laugaveginn í sumar er leið sagði mér að þar í landi væri félag utanvegahlaupara fjölmennur félagsskapur. Hún frétti af Laugaveginum á vorfundi þess. Ég held að það væri ómaksins vert ef einhver (kannski ætti maður að gera það sjálfur) kæmi upp góðum vef með myndum frá Laugaveginum, Hornstrandahlaupinu, Jökulsárhlaupinu og Barðsnesshlaupinu. Þetta er nú ekki dónaleg blanda.

Ég finn að ég er aðeins farinn að léttast en það gengur hægar en ég vildi. Á sunnudaginn fór ég í fyrsta sinn undir 85 kg um fleiri mánaða skeið þegar ég kom heim að hlaupi dagsins afloknu. Ég þarf að ná af mér ca 5 kílóum til viðbótar fyrir vorið. Maður myndi finna fyrir því ef hengd væru á mann svona 10 smjörstykki rétt fyrir ræsingu. Þetta er vafalaust agaleysi í mataræðinu sem gerir það að verkum að þau fara hægar en skyldi.

Engin ummæli: