Fór af stað tæplega 8.30 í morgun og hitti Pétur og Halldór úti í Fossvogsbotni um kl. 9.00. Pétur skipuleggur hvert hlaupið er hverju sinni. Hann tilkynnti að nú yrði erfiður dagur þar sem síðasti laugardagstúr hefði verið alltof léttur. Við tókum strikið þvert yfir í Kópavoginn og upp brekkuna að kirkjunni, þaðan yfir gegnum Smáralindina, gegnum göngin og upp brekkuna, þaðan til baka niður í Kópavoginn og upp brekkuna rétt fyrir innan tröppurnar fram hjá HK heimilinu. Þaðan lá leiðin niður í Fossvoginn og upp brekkuna að Réttarholtsskóla. Þar næst fórum við niður í Elliðaárdal og upp stokkinn að vegamótunum við mjólkurstöðina. Ég tók púlsinn upp brekkuna og hann var rétt rúmlega 135. Frá mjólkurstöðinni fórum við niður í Grafarvogsbotn og þaðan til vinstri upp brekkuna og áfram og áfram upp og upp. Ég hef ekki hugmynd um hvað hverfið hét sem við fórum í gegnum en þaðan tókum við aðra brekku upp að hitaveitutönkum (þeim syðri). Þar uppi var frost, hvasst og haglél. Við tankana gaf Pétur yfirlýsingu. Hans leiðsögn væri lokið og nú bjargaði sér hver til byggða sem best gæti. Þarna uppi eru sannarlega Highlands of Reykjavík. Það er allt annað veðurfar þarna uppi heldur en niðri við sjóinn. Hvílíkir Jökulheimar, ekki vildi ég búa þarna uppi. Við tókum sömu leið til baka niður í Grafarvoginn, niður Ártúnsbrekku og í Elliðaárdalinn. Við undirgöngin skildum við en þá höfðum við hlaupið um 29 km á rúmlega 3 klst. Pétur og Halldór héldu sem leið lá beint vestur í bæ en ég tók smá lykkju út í Fossvoginn til að fara vel yfir 30 km.
Þótt manni finnist veðrið stundum mega vera betra þá er allt afstætt. Ég sagði Pétri og Halldóri sögu af hjónum í Kanada sem höfðu hlaupið nokkur ultraþon og nú ætluðu þau að leggja í 100M. Þau fundu hlaup í Texas sem passaði þeim tímalega vel ýmissa hluta vegna. Helsti gallinn var þó að það var haldið í byrjun febrúar, 5 hringir voru hlaupnir og var hver þeirra 32 km. Þau urðu því að þjálfa sig upp í nóvember, desember og framan af janúar. Þá var oftast -20 - -30 stiga frost þar sem þau bjuggu. Þau gátu ekki hlaupið úti í meir en 2 klst í einu. Þá þurftu þau að fara inn, skipta um föt og hlýja sér og fara síðan út í kuldann aftur. Undirbúningurinn tókst engu að síður og þau mættu í hlaupið. Það hófst í fjögurra stiga frosti, hitinn fór yfir 20 gáður yfir há daginn og síðan datt hitinn niður í sjö stiga frost um nóttina þegar þau voru að klára síðasta hring. Keppendum var sérstaklega bent á að passa sig á krókódílunum og quiotunum. Einu sinni um nóttina heyrðu þau gusugang sem gat ekki hafa stafað frá öðru en krókódíl. Þau káruðu hlaupið á um 26 klst þannig að erfiðið um veturinn borgaði sig.
Las athyglisverða grein eftir Sigurð Guðjónsson lögfræðing í Mogganum sem fjallaði um fjarskiptafyrirtækin, Og Vodafon og Símann. Hann þekkir þetta umhverfi vel og því ætti að taka mark á orðum hans. Hann hefur þá skoðun að enda þótt fyrirtækin dásami samkeppnina í orði þá sé á borði samkomulag milli fyrirtækjanna um að skipa markaðnum á milli sín til að hámarka hagnað beggja aðila.
Ég er pirraður þegar ég er að skrifa þetta. Á laugardagskvöldi vill maður hafa sæmilega mynd í sjónvarpinu. Nú er hins vegar verið sýna frá einhverri BAFTA kvikmyndahátíð í Bretlandi vegna þess að einhver Valdís er tilnefnd þar til verðlauna fyrir klippingu á einhverri mynd sem maður hefur aldrei heyrt nefnda. Ætlast þeir í ríkissjónvarpinu virkilega til að maður sitji viðþolslaus af spenningi og aðdáun og glápi á einhverja verðlaunaafhendinu á laugardagskvöldi í þerri von um að maður sjái einhverjum íslendingi bregða fyrir í útlandinu innan um "fræga" fólkið? Hvílík útnesjamennska. Auðvitað nægir í besta falli að lesa um úrslitin í blöðunum daginn eftir ef menn hafa áhuga á þessu á annað borð.
laugardagur, febrúar 12, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli