Vaknaði um 8.30 og lagði af stað um 9.30 niður í Laugardalslaug. Lögðum af stað þaðan upp úr tíu og fórum til baka inn í Elliðaárdal og þaðan út Fossvog. Það fór að kvarnast úr hópnum eftir því sem á leið því flestir ætluðu að fara frekar stutt. Við Suðurgötu var ég orðinn einn eftir og hélt áfram út á snúningspunkt í maraþoninu og þaðan sem leið lá til baka og heim í Rauðagerðið. Það urðu samtals um 25 km eins og ég var búinn að undirbúa. Hitti Svan á leiðinni. Hann er búinn að fara í liðþófaaðgerð og lét heldur vel af sér. Hann er farinn að ganga úti og ætlar sér um tvo mánuði þar til hann fer að fara að skokka á nýjan leik. Þetta er búin að vera góð helgi, um 60 km í gær og dag eins og stefnt var að.
Skrapp í gærkvöldi til mömmu og pabba. Í tal barst þegar fjölskylda flutti á Rauðasandinn árið 1934 austan úr austursýslunni. Búslóðin var flutt á bát en kýrnar voru reknar frá Svínanesinu sem leið lá vestur. Það hafa örugglega verið 5 - 6 dagleiðir. Reyndar voru kúrekarnir á hestum. Í sambandi við þetta rifjaði mamma upp frásögn sem hún hafði lesið í bók eftir Elínu Pálmadóttur blaðamann. Í stuttu máli gekk hún út á það að snemma á nítjándu öldinni var prestur að taka sig upp í Árnessýslunni til flutnings norður í Skagafjörð. Búslóðin var flutt á hestum og fólkið reið einnig norður en vandi var með nautgripina, sem voru bara tveir, kýr og kvíga. Málið var leyst á þann veg að unglingsstúlka og eldri vinnukona á prestsetrinu, Gunna eineygða, voru látnar reka kýrnar norður Kjöl og norður í Skagafjörð. Þær hafa líklega farið upp austan Hvítár og verið leiðbeint með kennileyti og fjallasýn. Eitthvað nesti höfðu þær til að byrja með en annars áttu þær að lifa á nytinni úr kúnni. Þegar þær syfjaði skyldu þær sofa á mosaþembum. Mamma mundi ekki nákvæmari lýsingu af ferð þeirra norður en þegar komið var niður í Skagafjörðinn var ekki allt búið því prestur hafði sett sig niður úti á Höfðaströndinni, töluvert fyrir utan Hofsós. Þær komust að lokum alla leið því sagan segir að sú yngri hafi fest ráð sitt þar nyrðra og eignast börn þar. Pálmi heitinn í Hagkaup er einn af afkomendum hennar. Svo eru menn að tala um að það sé etthvað mikið að vera á ferðinni í rúman sólarhring, vel undirbúinn með nesti á hverjum fingri.
Hlustaði áðan á Jónínu Benediktsdóttur í Silfri Egils. Hún sagði margt sem vakti mann til umhugsunar. Kannski meir um það síðar.
sunnudagur, febrúar 06, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli