miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Stutt hlaup í gærkvöldi, ca 8 km. Það verður æ léttara að halda þokkalegum hraða, sérstaklega er mikill munur á að vera á auðum gangstéttum miðað við að hlaupa á mannbroddum. Ég hef lengi reynt að vera skynsamur í mataræði, en misjafnt er hvernig það gengur. Um leið og ég fer á fætur, uppúr sex á morgnana, drekk ég glas af vatni og fæ mér lýsi á fastandi maga. Síðan eftir ca klukkutíma, þegar blaðaútburðinum er lokið, þá borða ég alltaf ósykrað skyr í morgunmat, hrært út í kornfleksi og mikið af þessu. Ekki veit ég hvort þetta sé einhver ódáinsfæða, en ég kvarta alla vega ekki. Ég forðast hvítt hveiti og sykur eins og ég get en reyni að borða próteinríka fæðu og grænmeti eftir föngum. Kaffi og gos drekk ég ekki. Ég þarf reyndar að létta mig um nokkur kíló á næstu mánuðum eftir jóla og þorramatsveislur liðinna vikna, svo þar kemur aginn svolítið til skjalanna.
Samband sveitarfélaga, þar sem ég vinn, flutti sl. vor í nýtt húsnæði í Borgartúninu og erum við þar uppi á 5. hæð. Sívaxandi fjöldi starfsmanna er farinn að labba upp stigana á morgnana í stað þess að taka lyftuna. Lengi framan af tók ég lyftuna umhugsunarlaust en frá áramótum hleyp ég upp stigann. Þótt ekki sé lengra um liðið finnur maður greinilegan mun, bæði hvað maður mæðist minna og eins hvað þetta tekur minna í fæturna. Það er sagt hér að þegar menn geti bæði komið lyklinum í skrána án aðstoðar og boðið góðan daginn á morgnana svo það skiljist eftir að hafa gengið upp stigana, þá sé formið orðið þokkalegt.
Man Utd vann góðan sigur í gær á Highbury. Ég get ímyndað mér hvernig Arsenalmönnum líður, tap fyrir þeim á Old Trafford með þessari markatölu hefði verið erfitt að bera.

Engin ummæli: