Fór af stað kl. 6.30 í morgun sunnudag. Til að ná tveimur markmiðum, að skila hlaupaplani helgarinnar og vera mættur niður á flokksþing kl. 10.00 var ekkert annað í stöðunni en að taka daginn snemma. Fór hefðbundinn rúnt niður í Laugardalslaug og síðan sem leið liggur út Sæbraut og vestur á gamlárshlaupssnúning. Síðan austur sem leið liggur hefðbundnar slóðir í góðu veðri. Fór rólega og var kominn heim kl. tæplega 9.00 eftir 23 km.
Var kominn niður á Hotel Nordica kl. 10.00 eins og ætlað var. Titringur var í loftinu gagnvart tillögunni sem ég lagði fram á föstudaginn sem fól einungis í sér saklausa heimild í lög flokksins um að hægt væri að sameina félögin í Reykjavík í eitt kjördæmasamband ef mönnum sýnist svo. Þessi umræða gerði það að verkum að sumir fengu innantökur stórar og gengu um með gríðarlegum uppsölum. Yfirlýsingar flugu um að lítil klíka í Reykjavíkurkjördæmi suður ætlaði sér að fremja valdarán í Reykjavík og fleira í þeim dúr. Ég er þá líklega í hlutverki forsprakka valdaræningjanna. Ágreiningurinn barst til hæstu hæða og var leitað leiða til að stroka málið út með einhversskonar málamiðlunum en svo margir vildu fá niðurstöðu í umræðuna að því var hafnað að svæfa málið. Því var málið lagt fyrir laganefnd og tekið þaðan út eftir harðar umræður með 44 meðatkvæðum gegn 29 mótatkvæðum. Ég lýsti því yfir í nefndinni að ef tillaga mín yrði undir þá myndi ég ekki hreyfa málinu í sal. Ekki voru allir sammála þeirri aðferðafræði því ágreiningurinn var tekinn upp af fullri hörku niðri á flokksþinginu af þeim sem undir urðu í laganefndinni. Leit um tíma út fyrir að öll endurskoðun laga flokksins færi í uppnám af þessum sökum. Að endingu var tekin sú umdeilanlega ákvörðun um að tillaga mín og fleiri var tekin út fyrir sviga og borin sérstaklega undir atkvæði þegar búið var að afgreiða aðrar lagabreytingartillögur. Þar sem lagabreytingar verður að samþykkja með 2/3 hluta atkvæða var niðurstaðan alls óviss. Atkvæði féllu hins vegar þannig að 88 voru sammála því að taka heimildarákvæðið inn í flokkslög en 43 voru á móti. Munaði sem sagt tveimur atkvæðum. Allmargir voru frammi að horfa á leik Liverpool og Chelsea og upphófst þegar mikil sálgreining á því hvernig þessir áhugamenn um fótbolta myndu hafa greitt atkvæði. Mér fannst margt af því sem gerðist í kringum þetta vera afskaplega fyndið en jafnframt grátbroslegt. Það gaf manni hins vegar dálitla innsýn í lendur sem maður hafði ekki yfirsýn yfir áður.
Víkingur vann góðan sigur á Þór í handboltanum. Þetta var nauðsynlegt ef liðið ætlaði að verða áfram í baráttunni um að komast í úrslitakeppnina.
sunnudagur, febrúar 27, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli