Nautilus í fyrsta sinn af alvöru i kvöld. Fór fyrst 8 km á brettinu. Það er í fyrsta sinn sem ég hleyp af einhverju viti á hlaupabretti (ef þetta er alvöru). Tíminn var 41,20 sem héðan í frá verður notuð sem viðmiðun, neðar verður ekki komist. Ég hef mér til afsökunar að það tók smá tíma að hita sig upp og finna út hraða sem passaði. Að hlaupinu loknu fór ég hring í tækjunum í æfingar sem eru sérstaklega ætlaðar til að styrkja fætur og maga. Þetta tekur vel í og þurfti ég að fara niður og skipta um bol, því það mátti vinda þann sem ég var fyrst í. Ég hugsa að það sé ekki ýkja vinsælt ef svitapollarnir liggja eftir þar sem maður hefur verið. Ég held að það sé mjög gott að hlaupa inni í hlýju eins og er inni í svona stöðum. Maður er þá betur undir búinn að hlaupa í hita þegar út í alvöruna er komið.
Úff, nú er það byrjað. Eftir að hafa horft á DVD diskinn í gærkvöldi þá dreymdi mig náttúrulega hlaupið í nótt. Ég var kominn vel að stað og gekk bara vel. Þá rak einhver augun í að ég hafði gleymt að setja á mig númerið og þar með var ævintýrið búið. Það væri gaman ef einhver gæti ráðið þennan draum. Kannski rætist hann. Maður getur þá huggað sig við að það hafi verið ákveðið fyrir fram í stjörnunum.
Fór í dag í jarðarför Ólafs Stefánssonar ráðunauts. Hann var jarðsunginn frá Bessastaðakirkju. Ólafur var einn af þessum nestorum sem mörkuðu djúp spor í landbúnaðinum á þeim tímum þegar framfarir og uppbygging stóðu með sem mestum blóma á síðustu öld. Þessum frumherjum fer nú fækkandi einum af öðrum.
Talandi um landbúnað þá eiga sér stað innan borgarkerfisins í Reykjavík áhugaverð pólitísk átök. R listinn hefur bannað kjúklingaframleiðenda á Kjalarnesi að dreifa skít á frosna jörð en Sjálfstæðisflokkurinn vill leyfa dreifingu skítsins að vetrarlagi jafnt sem sumarlagi. Er í því sambandi vísað til frásagnar af bústörfum Njálssona í Njálu er þeir óku skarni á hóla. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þessi átök þróast en sem landbúnaðarmaður verð ég að segja að R listann á stuðning minn í þessum átökum.
þriðjudagur, febrúar 15, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli