Nautilus í kvöld, rúmlega klukkutímaprógram, hlaup og átök. Lækkaði mig um 4 mínútur á 8 km. Þarf að taka annað eins af til viðbótar til að geta vera sæmilega ánægður. Það ætti að vera komið eftir svona mánuð eða svo. Ég er viss um að þetta verður gott innlegg í uppbygginguna að taka þetta skipulega og kerfisbundið. Ég hef verið að fylgjast með skýrslum um snjóalög við Squaw Valley. Það leit ekki allt of vel út framan af vetri en þá stefndi í að það yrði met úrkoma. Nú hefur hægst á henni og nálgast lína vetrarins meðalúrkomu svæðisins. Það er gott því það er ekki góð tilhugsun að þurfa að ösla krama snjóskafla klukkutímum saman eins og getur komið fyrir í miklum úrkomuárum.
Ég hef talað dálítið um það að undanförnu sem ég hef verið að lesa og skoða varðandi hlaupið enda þótt það séu yfir fjórir mánuðir til stefnu þar til það brestur á. Ég hef þá trú að það sé mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því nógu snemma út í hvað maður er að fara. Í því sambandi var mjög gagnlegt að fá myndina frá hlaupinu. Það knýr mann áfram í erfiðum æfingum á undirbúningstímabilinu og þá verður ekki við það að sakast að maður hafi ekki gert eins og hægt var. Það væri verra ef slugsið tæki yfirhöndina og maður myndi ekki taka sig á fyrr en þegar tíminn væri floginn frá manni. Það er of seint í rassinn gripið þegar út í alvöruna er komið.
Nýr forstjóri var ráðinn fyrir Flugleiðir í dag. Hann er án efa ráðinn vegna þess að hann er velmenntaður og öflugur starfsmaður sem hefur sýnt það að eigendur fyrirtækisins geta treyst honum eins og sjálfum sér. Ég geri ráð fyrir því að nýráðinn forstjóri hafi verið besti valkosturinn af þeim sem stjórnendur fyrirtækisins höfðu í sigti og hafi þess vegna verið ráðinn sökum eigin verðleika. Hjá fyrirtækinu eru orðin kynslóðaskipti og verður spennandi að fylgjast með því hvaða áherslubreytingar í stjórnun fyrirtækisins leiða af sér í rekstri þess. Þetta kemur mér í hug vegna þess að ég sá í Mogganum í morgun mynd af sex einstaklingum (öllum hdl) sem glaðbeittir sögðust gefa kost á sér í stjórnir lífeyrissjóða og fyrirtækja "ef eftir væri leitað". Ég hef varla séð heimskulegri uppslátt. Af hverju í ósköpunum skyldi einhverjum sem á í fyrirtæki eða þarf að kjósa fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðs og les Moggann í dag detta í hug að taka upp símann og hringja í einhvern þessara einstaklinga ef hann þekkir ekkert til verðleika hans. Ég geri ekki ráð fyrir að nýráðinn forstjóri Flugleiða hafi verið ráðinn til starfans eftir tilviljanakenndu úrtaki úr símaskrá eða eftir blaðaauglýsingu.
miðvikudagur, febrúar 16, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli