Í dag var ekkert hlaupið eða yfir höfuð nokkuð annað gert í þá áttina. Jóhann Reynir hélt upp á 16 ára afmæli sitt í kvöld og bauð heim félögum sínum úr skólanum og úr Víking. Þetta eru afar fínir krakkar, duglegir í íþróttum og gengur ágætlega í skólanum. Ég hef verið að fylgjast með snjórapportinu á WS vefnum. Um tíma leit út fyrir að snjóalög yrðu með mesta móti en nú virðist hafa hægst á snjókomunni og hún nálgast að vera eins og í meðalári. Það skiptir miklu máli hve lengi þarf að ganga í snjó en það getur orðið býsna löng vegalengd ef snjóalög eru mikil. Það er bannað að vera með stafi í hlaupinu þannig að það er ekki hægt að létta sér puðið á þann hátt.
Fékk bækling Ferðafélagsins í kvöld. Það er ánægjulegt að sjá hve augu manna eru að opnast fyrir ferðamöguleikum á sunnanverðum Vestfjörðum. Látrabjargið hefur hingað til verið það sem helst hefur verið sótt af ferðamönnum en það er auðsætt að athygli ferðafélagsmanna hefur vaknað fyrir hinum fjölþættu möguleikum sem ssvæðið býður upp á.
Ég setti inn í myndaalbúmið nokkrar myndir úr gönguferð sem ég og nokkrir aðrir félagar fóru í sumar. Það eru 11 ár síðan við fórum fyrst á Hornstrandir og síðan hefur þetta verið eins tryggt og sólin kemur upp á morgnana að það er farin vikugönguferð á hverju sumri. Lengi framan af gistum við eingöngu í tjöldum en á seinni árum höfum við heldur hallað okkur að gistingu í skálum þegar því hefur verið við komið. Í sumar fórum við inn í Núpsstaðaskóg og gistum í þrjár nætur þar í tjöldum. Við gengum inn Núpsstaðaskóg og inn að Grænalóni, upp að Súlu og upp á Lómagnúp. Veðrið var eins og best var á kosið, hlýtt og bjart. Síðan keyrðum við austur á bóginn og gistum í tvær nætur á Flatey á Mýrum. Þaðan gengum við inn Heinabergsdal og inn að Vatnsdal en þar er sérkennilegt jökullón. Það hafði verið í bígerð að ganga upp að Humarklónni en hætt var við það. Hópurinn samanstendur svo sem ekki af neinum unglömbum, tengdapabbi og bróðir hans eru báðir komnir yfir sjötugt, einn er tæplega sjötugur og síðan eru nokkrir unglingar sín hvorumegin við fimmtugt. Við höfum farið margar skemmtilegar ferðir á liðnum árum og eigum vonandi slatta eftir.
Nú er langt hlaup á morgun, spáin er heldur góð sem betur fer.
föstudagur, febrúar 11, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli