sunnudagur, apríl 03, 2005

Alhvítt í morgun þegar út var komið. Fór niður í Laugardal á seinni hálftímanum í tíu. Þar var góðpur hóps kominn saman en ég valdi að fara einn vestur í bæ. Ég vildi hlífa hnénu og haga hraðanum eftir eigin forsendum. Mér finnst líka gott að æfa mig í að blanda saman göngu og hlaupum (walk and run) eins og Bandaríkjamenn iðka mikið í lengri hlaupum. Fór alveg vestur að Gróttu og út fyrir golfvöllinn og síðan hefðbundna leið austur úr. Fór síðan upp að stíflu og náði vel yfir 30 km sem er ágætt miðað við að ég hlífði fætinum aðeins. Nú verður að halda vel á spöðunum ef fyrirhuguð markmið eiga að nást.

Ég er búinn að mæla hringina vestur í bæ nokkuð nákvæmlega. Ef maður fer hringinn frá Laugardalnum vestur í bæ og beygir hjá Eiðistorginu, fer svo austur með flugvellinum, Fossvoginn og í gegnum undirgöngin í Elliðaárdalnum og svo sem leið liggur niður í Laugardal aftur gegnum Húsdýragarðinn þá eru það 20 km. Ef farið er vestur á gamlárshlaupsbeygju og síðan sömu leið þá eru það 23 km. Ef farið er vestur á Gróttu og beygt hjá bílastæðinu þá eru það rúmir 25 km. Ef farið er alveg út fyrir golfvöllinn þá eru það um 27 km.

Fréttamennrinir sigruðu á RÚV eins og líkur bentu til. Einn úr hópnum var ráðinn. Allir glaðir nema sumir sem borga þeim kaup með þvinguðum aðgerðum. Það sem ég hef heyrt mest af viti sagt um málið heyrði ég í morgun hjá Ágústi Þ. Árnasyni, verkefnisstjóra hjá HA sem var í spjalli við Margréti Blöndal. Hann talaði þannig sem fyrrverandi fréttamaður að augljóst er að þarna innan dyra er mikill vandi til staðar og hann er ekki einvörðungu bundinn við útvarpsráð og skrifstofu Markúsar eins og umræðan hefur leitast við að gefa til kynna. Ágúst féll ekki í þann pytt að slást í hópinn með fyrrverandi kollegum og bannfæra stjórnendur stofnunarinnar einhliða.

Ég fór að velta fyrir mér hvað stendur á þak við það þegar fréttamenn kalla sig fagfólk í fréttamennsku, öðrum fremri að eigin mati. Felst fagmennskan í því að hafa lesið fréttir af aflabrögðum, góðu eða slæmu veðri og fyrirspurnum þingmanna í utandagskrárumræðu í ákveðinn lágmarkstíma með hljómfagurri röddu. Er röddin undirstaða fagmennskunnar? Gaman væri að vita hvernig þeir fréttamenn RÚV sem hafa haft sig mest í frammi eru menntaðir. Nýr fréttastjóri er sagnfræðingur. Er það fagmenntun í fréttamennsku? Hvað er fagmennska í fréttamennsku? Fjölmiðlafræði gefur ekki réttindi til starfa á fréttastofum en hefur byggt ákveðinn grunn.

Sá í morgun að kona sem heitir Steinunn skrifaði bannfæringarpistil á baksíðu Fréttablaðsins. Hún tók tvö dæmi máli sínu til stuðnings, frekar óheppileg að mínu mati. Hið fyrra var að engum dytti í hug að ráða kennara sem einungis hefði kennt í forföllum í starf skólastjóra, jafnvel þótt hann hefði til þess öll réttindi. Ég spyr hvers vegna ekki? Skólar eru nefnilega dæmi um þjónustustofnanir þar sem starfsmenn vilja of oft ráða hver verður yfirmaður þeirra. Oft á það að vera einn úr hópnum. Að mínu mati er það miklu meiri þörf að skólastjóri sem á að stjórna 1000 manna vinnustað (svo tekið sé dæmi um stærstu skólana) að hann hafi víðtæka stjórnunarreynslu heldur en að hann hafi kennt kristinfræði og dönsku í 20 ár við skólann svo dæmi sé tekið. Samtök kennara vilja hins vegar að kennarar hafi forgang í störf skólastjóra en menn eru æ meir að efast um að það sé rétt stefna. Starfsmannastjóri hjá Eimskip er hjúkrunarfræðingur að mennt með framhaldsnám í stjórnun og mikla stjórnunarreynslu. Hún er hvorki skipstjóri eða með lyftarapróf.
Síðan segir Steinunn að engum dytti í hug að ráða nýútskrifaðan stýrimann sem aldrei hefði migið í saltan sjó sem skipstjóra á stóru skipi. Enginn fær inngöngu í stýrimannaskólann nema hann hafi ákveðna reynslu af störfum á sjó. Enginn lýkur prófi úr efsta bekk stýrimannaskólans nema hann hafi mikla reynslu af störfum á sjó. Það er mjög algengt að nýútskrifaðir nemendur úr Stýrimannakskólanum séu ráðnir skipstjórar á skipum. Þegar ég var fyrir vestan kom það fyrir að skipstjórinn var yngsti maðurinn á bátnum. Þá voru ungum kraftmiklum strákum gefinn sjens sem skipstjórum þegar menn sáu í þeim veiðimannsvon. Öðrum skipverjum datt vitaskuld ekki í hug að taka bátinn herskildi og heimta að einn úr þeirra röðum væri ráðinn sem skipstjóri. Ef þeir voru óánægðir fóru þeir á aðra báta.

Ég geri ekki ráð fyrir að orðlegja þetta fréttastofumál mikið meir, þetta er ekki þráhyggja hjá mér. Mér leiðist hins vegar að lesa og heyra alla þá bölvaða vitleysu sem maður hefur orðið vitni að á undanförnum vikum. Sumu af þessu fólki þarf maður nauðugur að borga laun.

Í morgun hlustaði ég einnig á viðtal við ritstjóra Icelandic Rewieu og einhvern annan mann. Þau töluðu dálítið um að hingaðkoma Fishers myndi draga úr ferðamannastraumi til landsins vegna yfirlýsinga hans og við yrðum að sýna innflytjendum umburðarlyndi. Þau fordæmdu einnig innflytjendalögin. Ég er hlynntur innflytjendalögunum og ég mun sýna innflytjendum umburðarlyndi ef þeir sýna menningu okkar og siðum umburðarlyndi og skilning. Ef ég kæmi til sumra Arabalanda og hagaði mér eins og ég geri hér yrði ég settur í steininn eða jafnvel bara skotinn. Konur sem ganga þar með bera handleggi eru grýttar. Hvar er umburðarlyndið þar? Auðvitað er það ekki til. Þeir gera eðlilega kröfu um að innflutt fólk aðlagi sig að þeim siðum og venjum sem eru fyrir í landinu, annars geta menn bara farið annað. Sama á að gilda hér. Mér fannst merkilegt að ritstjórinn endaði viðtalið á því að hún vonaðist til þess að hingað myndu flytjast heppilegra fólk en rasistinn Fisher. Mér varð á að hugsa, hvar var nú umburðarlyndið fyrir skoðunum annara. Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.

Engin ummæli: