laugardagur, apríl 16, 2005

Fór ekkert að hlaupa í dag. Ég hreinlega nennti ekki að fara út í rok og ausandi rigningu. Ég verð að vinna daginn upp næstu daga með því að fara lengra en ég ætlaði. Það er bara gjaldið sem maður verður að greiða fyrir hóglífi dagsins. Rigning er hreinlega verri en snjókoma og frost. Það er hægt að klæða það af sér en ekki árans rigninuna. Einstaka kjarkmaður hætti sér út að hlaupa, m.a. sá ég Pétur Blöndal koma holdvotan niður með Glæsibæ.

Athyglisverð frétt í kvöldfréttum sjónvarpsins þar sem fjallað var um Lambaselsútdráttinn. Það er bara ekki hægt að útdrátturinn í svona happdrætti skuli ekki hafinn yfir gagnrýni. Draga úr kökuboxi. Godbevares. Ég hélt að það væri til nóg af forritum sem myndu draga tölurnar random en svona. Ég var náttúrulega með tölu á því þúsundi sem einungis ein taka var dregin út. En þaður hefði verið með þeim fyrstu að leggja inn umsókn hefðu líkurnar verið meir að fá Jackpot. Að fá lóð í Lambaselinu er svipað og að 5 milljóna vinning í happdrætti. Vistaböndin eru sem betur fer aðferð gærdagsins þannig að það er ansi erfitt að skylda fólk til að búa í húsi sem það byggir.

Ég hff verið að hugsa undanfarna daga um boðskapinn um gjaldfrjálsan leikskóla. Í grein eftir grein sér maður í blöðunum að þetta auki velferð fjölskyldunnar. Ég tel mig vera fjölskyldumann en ég sé ekki annað en að þetta geri mína stöðu verri þar sem börnin mín eru ekki á leikskóla og þessi aðgerð þýði hærri skatta. Það er lágmarkskrafa sem verður að gera til þeirra sem eru að tjá sig um svona mál að það sé farið rétt með hluti en ekki verið að fjasa tóman hálfsannleik. Þegar maður var með krakkana á leikskóla þá kostaði það vissulega peninga en maður neitaði sér bara um ýmislegt annað á móti og þótti bara sjálfsagt. Á maður nú að heimta að samfélagið greiði matinn fyrir krakkana í grunnskólanum, greiði kostnaðinn við að þau taka þátt í íþróttum eða séu í tónlistarskóla svo dæmi séu nefnd, því það má ekki leggja neitt á neinn núorðið? Það er til dæmis ekki samasem merki milli þess að vera með börn á leikskóla og vera láglaunamanneskja. Sem betur fer fær margt fólk sem á ung börn háar tekjur. En það getur þá bara borgað fyrir sig þá þjónustu sem það vill fá eins og að setja börnin á leikskóla svo það geti unnið fyrir háu laununum sínum. Ef öll börn fengju leikskólapláss án þess að greiða fyrir það væri kostnaður sveitarfélaganna ekki bara sá að greiða þann þriðjapart sem foreldrar hafa greitt til þessa, þar til viðbótar þyrfti að leggja fleiri milljarða í nýjar leikskólabyggingar til að geta tekið á móti öllum börnum upp til 6 ára aldurs svo dæmi sé nefnt.

Slagurinn í formannskjöri Samfylkingarinnar harðnar. Nýjasta útspil stuðningsmanna varaformannsins er að Sjálfstæðismenn séu að tromma í röðum inn í flokkinn til að kjósa Össur. Þetta er dæmigerður málflutningur rökþrota fólks. Sá grein eftir varaformanninn í Mbl í dag þar sem hún segist vilja afnema fátækt. Skoðum það aðeins. Að mínu mati verða alltaf einhverjir fátækir í öllum samfélögum sama hve vel megandi þau eru. Þannig eru hlutirnir bara. en hvernig á að afnema fátækt? Hækka atvinnuleysisbætur þannig að allir séu ánægðir. Til hvers á fólk þá að vinna ef það hefur það bara ágætt með því að vera á bótum. Hvaðan eiga skatttekjurnar að koma? Það er orðið þjóðfélagsvandamál í Svíþjóð hvað margir lifa á bótum frá því opinbera. Mig minnir að það séu um 1,5 milljónir af þeim 5 milljónum sem eru á vinnumarkaðsaldri. Er það ástand sem menn vilja innleiða hér? Í þessum sósialdemokratisku löndum þar sem öryggiskerfi ríkisins er mjög þéttriðið eins og Noregi, Danmörku og Svíþjóð sér maður þó mikla fátækt. Mér fannst það mjög athyglisverð niðurstaða í könnun Hörpu Njáls hér um árið að 93 - 94% þjóðarinnar hefðu það ágætt. Því eru frasar eins og það eigi að útrýma fátækt tómt lýðskrum í mínum augum.

Auglýsingaliðið lætur ekki að sér hæða. Nú er komin auglýsing frá SS um hið frábæra, beinlitla lambalæri sem einhver kona segir að sé svo þægilegt að jafnvel kallinn geti skorið það. Bara svo það sé á hreinu þá er ég alltaf látinn skera lambalærin á mínu heimili án þess að sækjast sérstaklega eftir því. Hvað ætli Jafnréttisstofa og feministaliðið myndi segja ef það væri birt mynd af karli við lærið sem segði að það væri svo þægilegt að jafnvel kellingin gæti skorið það? Mín trú að auglýsingin færi þá með hraði sömu leið og málsháttabókin frá Odda, beint á brennuna. Hugarfarið og þrönghyggjan í þessu liði ríður ekki við einteyming.

Víkingur spilaði til úrslita við Val í 2 flokki í handbolta í dag. Leikurinn var tvíframlengdur og fóru Valsmenn þá með sigur af hólmi. Víkingar áttu að geta tryggt sér sigurinn bæði í hefðbundnum leiktíma og í fyrri framlenginu en svona fór þetta.

Engin ummæli: