Hefðbundinn 16 km hringur í kvöld í fínu veðri. Kom heim rétt um miðnættið. Þetta líkar mér vel að taka hring sem maður þekkir út og inn og veit nákvæmlega hvað bíður bak við næsta horn. Ég tek þetta eins og hverja aðra vinnu eða verkefni sem maður þarf að klára. Nú er að fara að hlýna og er það vel.
Fór í kvöld á myndakvöld hjá Ferðafélaginu. Það voru sýndar myndir vestan af Rauðasandi og frá Látrabjarginu svo og frá Þjórsárverum. Rauðisandurinn er mér vel kunnur en ég hef aldrei komið í Þjórsárver. Kunningi minn sem hefur víða farið og margt séð segist varla hafa farið í skemmtilegri gönguferð en þangað með Gísla Gíslasyni prófessor sem leiðsögumanni. Nefndur Gísli er hættur að fara sem fararstjóri í Þjórsárver sökum heilsubrests en ræðst í viðfangsefni sem hann ræður við og þar á meðal að taka að sér fararstjórn um Rauðasand og Látrabjarg en hann sýndi einmitt myndir þaðan að vestan í kvöld. Hann er ættaður frá Látrum. Ferðafélagið stendur m.a. fyrir ferðum á þessa staði í vor og sumar.
Hitti Elísabetu Sólbergs á ferðafélagskvöldinu. Hún veiktist skömmu eftir Amsterdammaraþonið í haust og fékk blóðtappa í lungun. Hún hljóp þar maraþon á mjög glæsilegum tíma. Hún sagðist hafa veikst illa skömmu eftir að hún kom heim og hélt engu niðri dögum saman. Hún kenndi veikindunum og ofþornun vegna þeirra um veikindin en ekki að þau tengdust beint ofálagi vegna hlaupanna. Hún hefur verið lengi að ná sér og fór ekki að vinna fulla vinnu fyrr en í mars. Hún var nokkuð bjartsýn og sagðist vera að finna verulegan mun á framförum og bakslögin sem hún hefur fengið væru orðin vægari en fyrst. Hún er orðin það frísk að hún ætlar að taka að sér fararstjórn um sunnanverða Vestfirði í sumar með aðsetri á Tálknafirði. Vonandi gengur endurhæfingin vel hjá henni og heilsan verði eins og hún á að sér að vera.
fimmtudagur, apríl 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli