Fór 16 km í kvöld. Hélt að það væri kalt og hvasst og bjó mig vel en svo var bara hið besta veður, svolítið kalt en næstum því logn. Fínn túr. Sá í undirgöngunum við Elliðaárdalinn að strákarnir höfðu náttúrulega skilið við krassverkið eins og andskotinn hafi verið að verki. Ekki veit ég hvort það að ég spjallaði við þá gerði það að verkum að þeir hættu fyrr en ella eða hvort kuldinn rak þá heim, söm er gjörðin. Rétt við undirgöngin hafði borgin sett upp eitt af mörgum leiðbeiningaskiltum fyrir göngu- og hlaupaleiðir í borginni. Einhver krasshundurinn hafði ekki getað séð það í friði en spreyjað svo yfir það að það er að mestu ónýtt.
Horfði á Steingrím og Geir Haarde ræða símasöluna í sjónvarpinu í kvöld. Nú voru reglurnar sem settar voru þegar átti að selja símann fyrir þremur árum orðnar mjög skynsamlegar samkvæmt orðum Steingríms. Þá átti t.d. ekki að selja meir en 49% og ríkið átti að eiga 51%. Vitaskuld datt eingum að leggja einhverja peninga sem skiptu máli í fyrirtækið við þau býti, að ríkið myndi stjórna og ráða öllu. Annað hevrot er að selja allt saman eða vera ekkert að velta þessu fyrir sér. Það er oft svo að þegar menn vilja fá stórar tölur þá er margfaldað með mörgum árum. Nú er t.d. búið að finna út að síminn hafi skilað ríkinu 23 milljörðum í arð á sl. 15 árum. Meðan þetta var ríkisrekið einokunarfyrirtæki þá þýðir þessi útkoma náttúrulega ekkert annað en að gjaldskráin hafi veriið alltof há en segir ekkert um raunverulega arðsemi fyrirtækisins. Vitaskuld þýðir ekkert að ríkið sé að vasast í samkeppnisrekstri, það er vel flestum að verða ljóst.
Auglýsingar Umferðastofu hafa vakið athygli mína. Þær sýna m.a. kall í umferðinni sem öskrar ókvæðisorðum að öðrum vegfarendum. Lítill strákur situr í aftursætinu, er ekki í bílstól, og hefur strax lært munnsöfnuðinn. Síðan birtist í morgun mynd í blöðunum af litlum krakka að fokka og hreyta úr sér einhverjum ókvæðisorðum um konur. Ég verð að segja að þessar auglýsingar segja mér ekki nema eitt. Þær staðfesta ásamt mörgu fleiru þá karlfjandsamlegu hugmyndafræði sem virðist tröllríða samfélaginu um þessar mundir og birtist svo víða í því feministaofstæki sem ég hef áður minnst á. Karlar eru sýndir í auglýsingum sem vitlausir, feitir, heimskir, skítugir, ruddalegir og frekir. Þetta þykir voðalega sniðugt og enginn þorir að opna munn til að mótmæla þessu. Mér er sem ég sæi upplitið á boðberum jafnréttisins ef svipaðar staðalímyndir yrðu birtar með kvenfólk í aðalhlutverkum.
Sá í dönsku blöðunum í dag að norski jafnréttisráðherrann (kona) hefur í hyggju að loka þeim fyrirtækjum norskum sem ekki hafa að lágmarki 40% kvenna í stjórnum fyrirtækjanna eftir tilskilinn tíma. Er ráðherrann orðinn spinnegal? Maður bara spyr. Ef þetta er ekki ofstæki, þá veit ég ekki hvað það er. Öll fyrirtæki sem skipta einhverju máli munu vafalaust flytja úr landi ef þetta verður uppi á teningnum. Það er kannski það sem ráðherrann vill. Ég hef áður spurt að því hvað kemur almannavaldinu það við hvernig ég skipa stjórn þess fyrirtækis sem ég á og hef lagt mína peninga í og ræð og stjórna í krafti þeirra. Ég sé ekki að jafnréttisráðherrum eða iðnaðarráðherrum komi það bara nokkurn skapaðan hlut við. Þeir geta einbeitt sér að þeim stjórnum sem ríkið skipar en ættu að hafa vit á því að láta einkaaðila í friði.
Chelsea tók Bayern Munchen í bakaríið í kvöld. Okkar maður spilaði allann leikinn og stóð sig vel. Gaman verður að sjá hve langt þeir Chelseamenn komast í ár.
fimmtudagur, apríl 07, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli