sunnudagur, apríl 17, 2005

Fór af stað í morgun rétt fyrir kl. átta og hélt í vesturátt. Hafði fyrst hugsað mér að taka hring áður en ég færi niður í Laugar en þegar ég kom yfir brúna í Fossvogsbotninum fór ég að hugsa um frýjunarorð Péturs og úr varð að ég tók almennilega brekkuæfingu. Ég fór fyrst yfir Kópavogshálsinn við kirkjuna og yfir Kópavoginn og upp á Garðabæjarhálsinn, þaðan til baka yfir Kópavoginn og upp tröppurnar. Ég fór svo niður þær aftur og upp brekkuna við hliðina á HK húsinu. Síðan lá leiðin yfir Fossvoginn og upp að Réttarholtsskóla. Þar næst fór ég niður í Elliðaárdal og upp Poweratehringinn að sunnanverðu og niður að norðanverðu. Þaðan fór ég upp stokkinn upp að Orkuveitu og síðan niður í Grafarvoginn og upp úr botn i hans sem leið lá alla leið upp að tönkunum inn af Jökulheimum. Þá sneri ég við og fór sömu leið til baka niður að Gullinbrú og gegnum bryggjuhverfið inn í Elliðaárdal og svo heim. Þetta gerði samtals 43 km á um 4.30 klst.

Þessi leið er svona einn fjórði af því sem WS 100 býður upp á. Ég fór að hugsa um að ef maður ætlaði að hlaupa fjóra svona hringi myndi maður fara allt öðruvísi í hlaupið. Þá myndi maður ganga upp allar brekkur svo dæmi sé tekið. Maður gæti farið fyrstu tvo hringina án mikilla erfiðleika, maður væri orðinn mjög þreyttur á þriðja hring og þann fjórða færi maður algerlega á þrjóskunni.

Sá netinu að góður hópur hlaupara var með í Londonmaraþoninu í dag. Gauti lét ekki að sér hæða og fór á 2.50. Þrír voru undir 3 klst. Aðrir á góðum tímum hver á sínum forsendum.
Glæsilegt.

Hlustaði á Jónínu Benediktsdóttur í Kastljósinu í kvöld. Missti reyndar af upphafinu en það sem ég heyrði var nægilegt til að hlusta af athygli. Hún hefur lagst yfir ársreikninga íslenskra fyrirtækja af mikilli elju og sendi frá sér hörð skeyti í ýmsar áttir. Ég þarf að skoða þetta mál betur. Það er þess eðlis að það er ekki hægt að láta það sem vind um eyrun þjóta.

Man.Utd. vann góðan sigur á Newcastle í dag. Það verður gaman að fylgjast með úrslitunum í Cardiff.

María og stöllur hennar spiluðu við KR í dag og höfðu betur 2-1. Jói og félagar spiluðu við Leikni og höfðu betur 3-2. Sem sagt ágætur dagur.

Horfði á Magdalenusysturnar í sjónvarpinu í kvöld. Ég heyrði um þessa mynd fyrir nokkrum árum en hafði ekki séð hana fyrr. Hún segir frá raunverulegum atburðum á Írlandi þar sem ungum stúlkum var komið fyrir í klaustrum ef þótti sem svo að þær hefðu vikið af þröngum vegi siðgæðisins. Síðustu stofnuninni af þessu tagi var lokað árið 1996. Manni leið beinlínis illa við að horfa á myndina. Nú er mikið af illsku og djöfulskap í heiminum og verður sjálfsagt lengst af, en þegar öfuguggahátturinn og óþverraskapurinn á sér stað í nafni kristninnar þá finnst manni fyrst vera stungin tólg.

Engin ummæli: