Fór 8 km í dag, fimmtudag, þegar ég kom úr vinnunni. Náði settu marki í mars sem var að fara yfir 400 km. Það er næstlengsti mánuður sem ég hef farið. Nú er 3/5 æfingatímans að baki en helmingur af hlaupamagni. Ef allt gengur upp sem ætlað er þá reyni ég að hlaupa um 1000 km í apríl og maí. Þar koma hins vegar inn Esjugöngur í allmiklu magni svo hæpið er að segja að allt verði hlaup en ég mæli þá bara tímann. Hnéð er að verða í lagi en það er ekki alveg eins og ég vil hafa það. Maður stressast upp af minnstu gárum á vatninu.
Gaman að lesa að það hafa fleiri komist í tengingu við Baskervill hundinn en ég. Þetta er eitt af þeim leikritum sem maður hlustaði á í útvarpinu hér áður fyrr á árunum. Þau eru manni enn í tiltölulega fersku minni. Önnur leikrit sem tína má til voru Ambros í París og Ambros í London, Lorna Dún, Umhverfis jörðina á áttatíu dögum og Hulin augu. Það var hræðilegast. Í því voru menn numdir á brott af ókunnum kröftum og rétt á undan hverju brottnámi heyrðist gríðarlegt borhljóð. Einu sinni man ég eftir við vorum nýlega búin að hlusta á einn þáttinn og vorum að leika okkur uppi á lofti. Við vissum ekki fyrr til en að borhljóðið fór að hvína í eyrunum á okkur. Um stund vorum við hvít af skelfingu þar til einhver áttaði sig á að niðri í eldhúsinu hafði nýkeypt Kitchen Aid hrærivél verið dregin fram því slegið skyldi í köku. Það hvarf sem sagt enginn það kvöldið (nema kannski kakan).
Farsinn í útvarpinu hélt áfram. Markús Örn var bannfærður af starfsfólkinu í hið þriðja sinn í dag. Ef hann sekkur ekki í jörð niður eða springur í loft upp innan skamms þá er ekki mikill kraftur í áhrinsorðum þess. Hlustaði á ótrúlegan pistil í útvarpinu seinni partinn í dag þar sem málatilbúnaði fréttamanna var haldið ákaft til streitu. Hlustaði síðan á G. Pétur á Stöð tvö þar sem hann fullyrti að fréttamenn hefðu aldrei misnotað aðstöðu sína í útvarpinu í þessu máli. Það eru greinilega fleiri ráðnir pólitískt en nefndur Auðun. Það er reyndar sjónarhorn sem þetta fólk ætti að hugsa um að allri þeir sem ráðnir eru með atbeina útvarpsráðs eru pólitískt ráðnir og er ráðning eins hvorki betri eða verri en annarra.
Mín skoðun er hins vegar absulut sú að starfsfólk á ekki að ráða ferðinni í svona máli. Allra síst geta viðkomandi einstaklingar gerst dómarar í sjálf síns sök um hver er fagmaður og hver ekki. Þeir sem eru ósáttir við ákvarðanir stjórnenda hafa einungis um tvennt að velja, sætta sig við gerðan hlut eða hætta og leita sér að annarri vinnu. Ég gef ekki baun fyrir svokallaðan fréttamannaheiður. Það er eins og hvert annað bull í mínum eyrum og get ég fært að því rök ef vill. Ef stjórnendur gera mistök þá kemur það í bakið á þeim síðar en þeir eru með þá ábyrgð að taka ákvarðanir en ekki aðrir. Í Kastljósi voru rakin nokkur dæmi um átök innan útvarpsins þegar starfsfólk var ósátt við yfirmannaráðningar og einhverjir hættu. Hver man eftir því í dag og hverju máli skipti það þótt einhverjir færu út úr útvarpinu? Ekki nokkrum sköpuðum hlut.
föstudagur, apríl 01, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli