Fórnaði hlaupunum í kvöld fyrir fyrirlestur og myndasýningu í Ferðafélagssalnum. Simon Yates, breskur fjallgöngumaður, var þar með myndasýningu og fyrirlestur um það sem hann hefur tekist á við í fjallgöngum. Hann er með öflugustu fyrir fjallgöngumönnum heimsins og hefur bæði verið frumkvöðull í að klífa mörg ný fjöll, en þekktastur er hann vafalaust fyrir förina ásamt Joe Simpson á Siula Grande i Perú árið 1985 sem hefur verið gerð skil í myndinni Touching the Void. Þeir lentu í miklum hrakförum eftir að Simpson fótbrotnaði á leiðinni niður og þurfti Yates að skera á línuna þar sem hann lét Simpson síga niður klettavegginn í myrkri og stormi og hann fór fram af klettum. Simpson hrapaði ofan í sprungu og var talinn af. Hann náði hins vegar að skríða út úr sprungunni á undraverðan hátt og síðan skreið hann yfir jökul, skriður og klungur í nær þrjásólarhringa og komst í tjöldin nær dauða en lífi. Þaðan tók við tveggja sólarhringa ferð á asna til mannabyggða, þar keyrði drukkinn bílstjóri þá til Lima og þar tók við mikið vesen að útvegna peninga frá London til að borga læknunum svo þeir færu að gera að sárum Simpsons. Myndin er mjög vel gerð og maður situr kaldsveittur að horfa á hana. Fyrirlestur Yates var fínn og ótrúlegt að sjá hvað menn geta lagt á sig og hvað þeir geta afrekað þegar viljinn er fyrir hendi.
Hitti Trausta og Pétur Helga á fyrirlestrinum. Þeir eru að undirbúa sig fyrir túr til Grænlands í sumar þar sem þeir ásamt tveimur til taka þátt í fjögurra daga liðakeppni þar sem er róið, hjólað, klifrað og hlaupið út frá Anmagsalik í fjóra daga. Samtals er farið yfir um 250 km. Það verður spennandi að fylgjast með undirbúningi þeirra og hvernig þeim gengur þegar á hólmninn er komið.
Ætla að fara að hætta að skrifa um RÚV. Ráðlegg áhugasömum að lesa 5. grein í siðareglum blaðamannafélagsins. Það hefur hins vegar verið mjög pirrandi að fá ruglinu nuddað framan í sig af fólki sem segist vera öðrum fremri. Einhverjir lesa það sem ég er að skrifa. Það er ágætt. Mér hefur m.a. verið bent á að hjúkrunarfræðingurinn sem vann sem starfsmannastjóri Eimskips væri hættur störfum. Gott og vel. Ekki veit ég hvers vegna. Ég hef verið spurður um Héðinsfjarðargöngin. Ég verð að segja að ég hef miklar efasemdir um þessa framkvæmd. Það eru víða fyrir hendi meiri þörf á vegabótum sem fleiri munu hafa gagn af sem hefur í för með sér meiri þjóðhagslega arðsemi. Sem dæmi má nefna hringveginn í Norðurárdalnum Skagafjarðarmegin og leiðina frá Borgarnesi upp fyrir Bifröst. Síðan má nefna Sundabrautina erf maður færir sig nær höfuðborginni. Ég þori varla að nefna Vestmannaeyjargöngin. Ég verð nú að segja að meiri vitleysa hefur varla verið presenteruð í samgöngumálum. Einnig má minna á að ef göngin opnast milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar þá mun einhver hluti af þjónustufyrirtækjum á Sigufirði leggja upp laupana þar sem sókn í þjónustu til Akureyrar mun aukast. Það er allstaðar afleiðing af bættum samgöngum að þjónustan þjappast saman. Það er ekki bæði hægt að sleppa og halda.
Hnéð er orðið gott. Ég hef hins vegar verið með eymsli í vöðvafestingu upp við mjöðm. Er búinn að finna teygjur sem taka á því en til öryggis er ég búinn að panta tíma hjá Erni nálastungumanni á Hrísateignum. Ég fór til hans fyrir tveimur árum með bólgur í lærinu sem ég náði ekki með nokkru móti úr mér. Það tók hann bara þrjú skipti að láta það hverfa. Mæli með honum.
þriðjudagur, apríl 05, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli