þriðjudagur, apríl 26, 2005

Fór 16 km í kvöld. Fínt veður, logn og hlýtt. Á laugardaginn verður Þingvallahlaup. Lagt af stað frá Nesbúð kl. 8.40. Nesti keyrt út kvöldið áður. Veðurspáin heldur góð. Áhugasamir eru beðnir um að láta vita. Sá á vefnum að félagi Ágúst Kvaran heldur viturt erindi í Háskóla Íslands um næringarbalans Ragnars Reykáss kl. 14.00 á laugardaginn þannig að ekki hleypur hann Þingvallahlaup. Líklega eru rannsóknir á Ragnörum allra landa næsta skref í þróunarbrautinni.

Í kvöld þegar ég var að skokka hlustaði ég á lýsingu á leik ÍBV og Hauka frá Eyjum. Eitthvað hafði útvarpsmanninum gengið illa að komast í samband í fyrri hálfleik og því var sjónvarpslýsingunni sleppt inn í útvarpið. Gekk vel og var fínt. Síðan náði útvarpsmaðurinn sambandi og þá sátu þeir hlið við hlið félagarnir á RÚV og lýstu leiknum hvor inn á sína rás. Ætli þetta sé enn ein sönnun þess að þetta er útvarp allra starfsmanna þegar tveir menn eru sendir á svona lýsingar í stað þess að tengja eina lýsingu inn á báðar rásirnar. Óarðbær atvinnubótavinna á vegum ríkisins var tíðkuð mikið í kommúnistaríkjunum hér áður en hún var líka dæmi um óvandaða notkun fjármuna.

Talandi um RÚV þá hef ég hugsað mikið um þáttinn með Jónínu Ben. frá því um daginn. Það er náttúrulega með ólíkindum að manneskju skuli hleypt í svona viðtalsþátt með órökstuddar árásir og fullyrðingar í allar áttir án þess að þurfa að standa við neitt einasta orð. Ég ætla ekki að segja af eða á hvort eitthvað sé til í þeim fullyrðingum sem hún hélt fram. Það er lágmark að leggja handfastar sannanir á borðið þegar slíku er haldið fram. Að öðrum kosti á viðkomandi þáttastjórnandi ekkert fyrr að missa en vinnuna og fullyrðandinn eitthvað annað. Hvað ætli yrði sagt ef ég myndi fullyrða að hinn eða þessi væri þjófur og ræningi ef ég fengi að leika lausum hala í sjónvarpinu? Ætli það myndi ekki draga dilk á eftir sér.

Engin ummæli: