föstudagur, apríl 08, 2005

Tók hefðubundinn 16 km túr á fimmtudagskvöldið. Var seint fyrir og komst ekki af stað fyrr en undir miðnætti. Var kominn heim langt gengið í 1.30 e.m. Mér leist þannig á veðrið að það væri betra að hlaupa um kvöldið en á morgun í slyddu og leiðindum. Þegar maður hefur sett sér markmið þá er annað hvort að halda þau eða sleppa þessu bara alveg.

Fékk gott bréf frá Rollin. Fer yfir það síðar.

Ástæða þess að ég var seinn fyrir var að kvöldið var tekið í tónleika í Austurbæ, meistara Megasi til heiðurs. Ég fór þangað með Svein og Maríu og við skemmtum okkur öll vel eins og allir aðrir sem þarna voru. Kallinn er sem sagt orðinn sextugur. Það hefði einhverjum þótt goðgá að hann næði þeim aldri fyrir 30 árum síðan þegar veislan stóð sem hæst.

Ég fór fyrst á tónleika með Megasi fyrir um 30 árum síðan þegar hann tróð up þar fyrir norðan með Listaskáldunum vondu. Þar söng hann meðal annars kvæðið langa "Fram og aftur blindgötuna" með viðlaginu "Ó, Jón Kennedy, æ hann er dauður". Þetta lag fékk ekki pláss á plötu með honum fyrr en þegar diskarnir voru endurútgefnir með aukaefni.

Ferill hans er ótrúlegur. Á meðan flestir atvinnupopparar láta sér nægja í besta falli að gefa út nokkrar plötur með frumsömdu efni (eða fara beint yfir í coverlögin) þá hefur hann sent frá sér þvílíkan urmul af plötum að með ólíkindum er. Flestar þeirra eru hrein meistarastykki. Allt samið af honum, bæði lög og textar. Allt sungið af honum sjálfum. Textarnir eru ekkert sykurfroðuhjakk þar sem ca tvær línur eru endurteknar svona 20 sinnum eins og sumir gera og kalla texta, heldur eru þeir oft á tíðum langir, vel ortir ljóðabálkar þar sem rýnt er út í ystu skot samfélagsins og það skoðað frá óvæntum sjónarhornum. Enda við hæfi að hann fékk Jónasarverðlaunum hér um árið sem þýddi "böns of money" í vasann hjá honum.

Fyrstu plöturnar eru hver um sig meistarastykki sem standa enn sem stórar og staðfastar vörður í íslensku poppsögunni. Fyrsta platan, Júdasarplatan, Eikarplatan, barnaplatan, Spilverksplatan og sjálfsmorðsplatan. Allar sígildar. Síðan liðu nokkur ár þar sem hann endurstillti kompásinn með einum eða öðrum hætti. Þá hófst önnur hrina. Hver platan rak aðra, þungar, léttar, klassíkerar, létt sönglög, djúpar pælingar. Afköstin gríðarleg og gæðin með ólíkindum. Af íslenskum tónlistarmönnum er það Bubbi einn sem hægt er að setja á svipaðan stall.

Ég hef ætíð keypt plötur Megasar gegnum tíðina og á sumar í fleiru en einu eintaki s.s. þær sem voru endurútgefnar. Vitaskuld keypti maður allt til að fá aukaefnið heim í stofu. Ég held að það sé einungis safnkassinn sem gefinn var út eitthvað fyrir 1990 sem ég á ekki. Litla platan er einhversstaðar til með lögunum Spáðu í mig og Komdu nú og skoðaðu oní í kistuna mína (komdu og sjáðu sjálf hve ég gulur orðinn er). Það er einn sá mergjaðasti texti sem hefur verið gerður við íslenskt dægurlag. Vafalaust hefur það verið bannað á sínum tíma og platan rispuð rækilega með treitommu nagla. Einnig á ég niðri í kassa heftin þrjú sem ann gaf út í krinum 1970. Textar, nótur og myndir.

Þrátt fyrr að Megas gangi ekki veg meðalmennskunnar og líferni hans hafi á stundum boðið upp á annað en það sem broddborgarar landsins telja sæmandi, þá hefur hann engu að síður samið lög og texta sem jafnast fyllilega á við það allra fallegasta sem birt hefur verið í heimi íslenskrar dægurtónlistar. Ég veit ekki hvað tekur t.d fram laginu "Tvær stjörnur" svo dæmi sé tekið.

Í lok tónleikanna í gærkvöldi var sýnt brot úr bannfærða sjónvarpsþættinum þar sem hann syngur með lepp fyrir öðru auganu hið magnaða lag "Geymdu handa mér meyjarblómið amma". Samkvæmur sjálfum sér þá mætti hann ekki í eigin afmælisveislu. Gott hjá honum. Hann er hann.

Engin ummæli: