Fór 16 km hring í gærkvöldi í fínu veðri, logni og -1 C. Fór seint af stað og var kominn heim langt gengið í miðnætti. Fór til Arnar á Hrísateignum um morguninn í seinni meðhöndlun. Hann raðaði í mig prjónum annarsvegar, nuddaði og teygði. Sumar teygjurnar voru þess eðlis að maður þurfti að halda sér fast í rúmið til að henda honum ekki út í vegg til að losna úr prísundinni en þetta var fínt þegar því var lokið. Ég er að hugsa um að fara til hans í júníbyrjun þegar æfingatoppnum er náð og álagið farið að minnka og fá nudd og yfirhalningu áður en lagt er í vesturveg.
Í gær kom ný snjóskýrsla á WS 100 vefnum ekki var það betra en síðast. Það hefur snjóað ansi mikið þarna síðustu tvær vikurnar. Það er þó von ennþá um að þetta verði vandræðalaust því snjór sem fellur um miðjan apríl er mjög laus í sér og þiðnar fljótt þegar hlýnar. Það er allt annað en snjór sem fellur að hausti og er kominn í grjóthart hjarn. Þetta er samt svolítið áhyggjuefni því það ersvo miklu erfiðara að hlaupa í snjó heldur en á malarstígum, sérstaklega þegar maður þarf að fara 20 - 25 mílna leið í krömum snjó.
Það er mikið rætt um símann og söluna á honum, misgáfulegt. Agnes Bragadóttir braut ísinn með grein sinni í Morgunblaðinu sem hefur hrundið af stað ákveðinni atburðarás. Það er hið besta mál að almenningur geti átt kost á því að kaup bréf í símanum með ágóðavon í huga. Það er vafalaust með símann eins og aðrar ríkisstofnanir að þær verða yfirleitt miklu verðmætari þegar einkaframtakið hefur farið höndum um þær heldur en þegar þær eru í eigu ríkisins. Því er mikilvægt að eignarhaldið dreifist ekki of mikið heldur verði hann seldur til stórra aðila með markvissa framtíðarsýn. Það skiptir nefnilega máli hvernig eignarhaldið skipast. Ef of margir og of smáir eigendur eru að slíkum fyrirtækjum þá getur það hent að þau verði móðurlaus, þ.e.a.s. að það sé ekki neinn ákveðinn aðili sem móti framtíðarsýn fyrirtækisins og framfylgi henni. Við slíkar aðstæður er einnig hætta á að hægt sé að ná völdum með afar lítið hlutfall hlutabréfa á bak við sig.
Ýmsir spekingar eru að spyrja hví almenningur eig að þurfa að kaupa hlutabréf í símanum þar sem hinn sami almenningur eigi símann. Það er mikill munur á ríkiseign og að sá almenningur sem býr í ríkinu hverju sinni eigi hlutina prívat og persónulega. Því er jafnvel hent á loft að það eigi að senda þjóðinni bréfin heim í pósti. Þá fyrst væri nú stand á Goddastöðum. Ég sá einu sinni þátt um stjórnmálaþróun Afríkunýlendnanna og hvað gerðist í þessum löndum eftir að þær urðu sjálfstæðar. Eitt helsta vandamálið (af mörgum gríðarlega stórum) var að þegar nýlendurnar urðu sjálfstæðar þá leit almenningur á eigur ríkisins sem sínar prívat og persónulegu eigur. Þar hirti hver sem betur gat af því sem ríkið átti og skyldur einstaklinganna gagnvart ríkinu og ríkisfyrirtækum voru engar, menn áttu þetta altsvo og réðu hvað þeir gerðu við það. Ég hef einnig orðið var við þetta hugarfar hérlendis hjá bæjarútgerðum. Þar hefur verið hægt að merkja þetta viðhorf að "við eigum fyrirtækið", það eiga allir að fá vinnu hjá því ef okkur vantar vinnu (við eigum jú fyirtækið og það er til fyrir okkur) og síðan var vinnumórallinn ekki ætíð sem skyldi (þetta er mitt fyrirtæki og ég ræð hvernig ég vinn hjá mínu fyrirtæki). Því er sú hugsun að "við eigum símann" og "við eigum að fá hlutabréfin ókeypis" alveg út í hafsauga að mínu mati. Þessi aðferðafræði var stunduð um tíma í Rússlandi þegar Jeltsín var sm skráutlegastur og allir vita hvar mikið af auðlindum þeim sem voru í eigur Rússneska ríkisins lenti. Við horfðum sum meðal annars á afsprengi þeirra leika við Bayern Munchen í meistaradeildinni í gærkvöldi.
Las grein Jakobs Frímanns í mogganum í morgun. Fín grein. Þetta er alveg ótrúleg umræða sem veður víða uppi eins og ég hef áður minnst á að karlmenn eigi ætíð að stíga hæversklega til hliðar ef einhverjum konum sýnist svo til að fá syndaaflausn vegna fortíðarinnar. Leggjum karlana bara á ís, þetta er nýjasta spekin. Það hlýtur svo að koma næst að það eigi bara að henda þeim alveg eins og gert er með matarafganga sem settir eru í ísskápinn og geymdir þar þar til þeir eru orðnir ónýtir og þá er þeim hent með góðri samvisku. Ég er jafnréttissinni að lífsskoðun en í því felst samt sem áður ekki að maður eigi að bukka og beygja sig yfir öllu sem sagt er og gert í nanfi þess. Jakob rakti nokkur dæmi um að hann hafi verið látinn stíga til hliðar af framboðslistum til að rýma fyrir konum sem fengu mun (miklu) minna kjörfylgi en hann í prófkjöri en samt sem áður voru þær teknar fram yfir hann vegna þess að þær voru konur. Mig undrar bara ekki að hann sé búinn að fá upp í kok og láti heyra í sér þegar farið er að halda því fram að það eigi bara að ísa kallkynið.
miðvikudagur, apríl 13, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli