Esjuganga fyrir kvöldmat. Fór eystri leiðina alla leið upp að Steini. Hún er töluvert lengri en að fara beint af augum en mikið betra að hlaupa hana niður. Ég var 37 mínútur upp að Steini en 24 mín. niður. Ég veit ekki hvort þetta sé góður eða slakur hraði en ágætur að miða við fyrir næstu vikur. Ég var fljótari upp að Steini nú en ég var fyrst upp í grjótbrekkuna fyrir ofan ána þar þannig að heldur er sótt fram á við. Veðrið var afar gott og hentugt fyrir stuttermaboli. Það lítur vel út með veður á laugardaginn, hæg norðan átt og gæti verið sólríkt og hiti þokkalegur.
Hef fylgst nokkuð með umræðunni um öryrkjaskýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans. Það er fögnuður að hægt skuli vera að ræða þessi mál án þess að allt fari beint í hávaða og brigslyrði. Niðurstaða skýrslunnar er nokkuð sláandi og sýnir að það er full þörf á að taka til hendinni í þessum málum á margan hátt. Það virðist ljóst að aðgengi fólks inn á örorkubætur sé miklu greiðari en eðlilegt er, enda eftir töluverðu að slægjast fyrir viðkomandi miðað við að vera í illa launuðum störfum. Mér fannst tillaga Tryggva athyglisverð að örorkubætur gætu falist í niðurgreiðslu á vinnulaunum í stað þess að afhenda fólki peninga og gera því þannig næstum ókleyft að komast inn á vinnumarkaðinn nema í svartri vinnu.
Það hefur verið nokkur umræða um álíka mál í Svíþjóð og sérstaklega það að þeim hefur fjölgað verulega sem segjast vera útbrunnir í starfi og geti ekki unnið. Prófessor í Umea hafði uppi efasemdir um að þarna væri allt sem skyldi og kerfið væri of auðvelt viðfangs. Þá risu upp margir læknar sem reyndu að keyra hann niður. Blaðamaður á Aftonblaðinu (fullfrískur) fór til læknis og kvartaði sáran yfir að lífið væri svo jobbigt, hann orkaði ekki með vinnuna og stressið væri að ganga frá honum. Eftir 42ja mínutna viðtal (þar af fór læknirinn í kaffi í 12 mínútur) stóð hann á tröppum læknaskrifstofunnar með vottorð uppá að hann væri újtbrunninn í starfi og gæti ekki unnið.
Haukar unnu íslandsmeistaratitilinn í handbolta kvenna í kvöld með sigri á ÍBV. Til hamingju með það Haukar. Ég sá þegar liðin voru kynnt að 7 leikmenn ÍBV báru erlend nöfn. Vissulega er Alla Gorgoria komin með íslenskan ríkisborgararétt en þá eru eftir 6. Haukar höfðu tvo erlenda leikmenn í sínum röðum. Mér finnst að það sé full þörf á að setja skorður við hve marga erlenda leikmenn þessi lið mega hafa innan sinna vébanda. Karfan hefur tekið á þessum málum og þar er bæði búið að setja þak á fjölda erlendra leikmanna og einnig launaþak. Hvaða möguleika hafa þau lið í íslandsmóti sem ekki geta sett milljónir á milljónir ofan í laun til erlendra leikmanna? Nákvæmlega alls enga.
fimmtudagur, apríl 28, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli