Frídagur í dag. Ágætt og nauðsynlegt að taka frídag af og til, sérstaklega þegar veðrið er leiðinlegt. Rollin skrifaði mér í gær. Hann lagði mér ákveðnar lífsreglur. Hann hefur hlaupið WS þrisvar sinnum. Tvisvar var hann um 26 klst á leiðinni en í síðasta skiptið náði hann undir 24 klst og fékk silfurbeltið. Það sem var öðruvísi í síðasta hlaupinu var að þá gekk hann upp allar brekkur og hafði því nægt þrek þegar fór að líða að lokum hlaupsins. Ef menn keyra sig út í upphafi þá detta menn svakalega niður á seinni hlutanum og þá eru mínúturnar fljótar að líða og mílurnar lengi að telja. Hann lagði áherslu á að borða og drekka vel frá upphafi og vera með a.m.k. þrenn pör af skóm í hlaupinu. Það lítur út fyrir að það verði töluverður snjór í ár og það tekur í. Þá er nauðsynlegt að hafa skó til skiptanna þegar farið er að verða þurrara. Síðan er ákveðið kerfi þar sem maður lætur ljós, vara batterí og annan búnað bíða. Gott er að hafa langerma skyrtu í poka þegar fer að kvölda því þá getur hitinn farið niður í 12 - 15 oC og hætta er að slái að manni þegar mestur krafturinn er farinn úr skrokknum. Að mörgu er því að hyggja. Hann ætlar að koma með á Foresthill School en þá eru 32 mílur eftir eða um þriðjungur hlaupsins (rúmir 50 k). Því miður kemst hann ekki til Íslands á Laugaveginn í ár en Laugavegurinn hverfur ekkert.
Prufaði annað höfuðljósið í gærkvöldi. Það er minna um sig en kom ekki síður vel út. Verkurinn í mjöðminni er alveg að hverfa. Það þakka ég bæði lagni Arnar nálastungumanns og markvissum teygjum. Það stressar alltaf svolítið að vera með svona drauga með í lestinni án þess að vita alveg af hverju þeir stafa.
Horfði með öðru auganu á jarðaför páfa í morgunkaffinu. Þetta var meiri serimonían. Mín skoðun er að Vatíkanið sé áhrifamesta og skipulagðasta mafía í heimi. Forsenda fyrir tilveru hennar er fáfræðin. Sá síðar í dag í sænska Aftonblaðinu að Bernhard Law, bandaríski biskupinn sem hraktist loks úr starfi vegna yfirhilmingar yfir fjölda barnanauðgara var ein aðalfígúran við jarðaför hans heilagleika. Eftir að hann hafði setið án kjóls og kalls um stund var hann nefnilega kallaður til Vatíkansins til annara og vandasamari verka. Þetta sýnir í sjálfu sér hvaða afstöðu Vatíkanið tekur til þessarar svívirðu. Hvað yrði sagt hérlendis ef biskupsstofa myndi ráða prest í vinnu sem hefði misst hempuna vegna yfirhylmingar um barnanauðgun? Biskupinn yrði náttúrulega flæmdur úr starfi, það kæmi ekki annað til greina. Þarna sýnir klerkaveldi Vatíkansins hið rétta andlit sitt og hver virðing þess er fyrir almúganum.
Eyddi dálitlum tíma í blaðberamál í dag. Við fengum nefnilega 41 kíló í morgun til að bera út. Það þarf minna en það til að adrenalínframleiðslan aukist. Las stelpu hjá Pósthúsinu ehf pistilinn vegna þessa sem er varla hægt að kalla annað en barnaþrælkun. Fréttablaðið ræður nefnilega allt niður í þrettán ára börn til að bera út hlössin sem þeim þóknast að láta blaðberana koma til skila. Það er um það bil tvöföld líkamsþyngd þrettán ára barna. Ég er hræddur um að framkvæmdastjóri Fréttablaðsins væri orðinn rassíður ef hann þyrfti að koma 200 kílóum af blöðum og bæklingum til skila í 119 hús á einum klukkutíma. Í desember fengum við í tvígang um 60 kíló til að bera út eða um 500 gr í hver hús. Annan daginn náðum við ekki að bera út nema um helming af einum bæklingnum áður en strákurinn fór í skólann. Strax eftir hádegi sama dag var hringt og honum hótað brottrekstri ef þetta kæmi fyrir aftur. Ég hringdi til baka og var ekki par glaður. Þessu nudda ég framan í þau hvenær sem tilefni gefst til. Ég held að þau skammist sín svolítið vegna þessa, alla vega láta þau svo. Ég er búinn að bera saman launakjör Jóa við laun blaðbera hjá Mogganum sem ber út í sama hverfi og við. Fyrir klukkutíma vinnu og útburð á ca 65 blöðum virka daga fær Morgunblaðsblaðberinn tæp 20.000 á mánuði með orlofi en án alls álags. Jói fær rúmar 14.000 á mánuði með orlofi en án alls álags en við erum a.m.k. klukkutíma og fjörutíu mínútur að bera út við normal aðstæður á virkum dögum. Stundum erum við samtals um tvær klst að koma hlassinu til skila. Þetta kallar framkvæmdastjóri Pósthússins ehf að séu áþekk laun fyrir áþekka vinnu. Ég hef í undirbúningi grein í Mbl vegna þessa.
föstudagur, apríl 08, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli