laugardagur, apríl 30, 2005

Þingvallavatnshlaupið í dag. Pétur og Halldór komu um kl. 8.00 og við vorum komnir austur um hálftíma síðar. Gerðum okkur klara og fengum aðvífandi mann til að taka mynd af okkur. Honum hnykkti við þegar hann heyrði áform okkar og taldi rétt að hafa mynd tiltæka ef þyrfti að auglýsa eftir okkur. Það var stíf norðan gola í fangið alla leið með vatninu að vestanverðu norður að þjónustumiðstöð. Annars var sól og frekar hlýtt. Við þjónustumiðstöðina tókum við 5 km aukaslaufu upp undir Ármannsfellið fagurblátt til að ná örugglega yfir 70 km. Það var þægileg tilfinning að fá vindinn í bakið og fjúka til baka niðureftir. Það var gott af hafa borið nesti út og geta haft nesti og drykki með jöfnu millibili. Við vorum léttir í spori og fjöllin, skógurinn og víkur vatnsins liðu hratt hjá. Pétur var sóttur af konu sinni við 42,2 km þannig að hann kláraði sitt maraþon. Við Halldór héldum áfram niður að Írafossi. Þar sóttu að okkur tveir grimmir hundar sem létu ófriðlega og okkur sýndist þeir vera alveg tilbúnir að eta okkur upp til agna ef þeim byðist tækifæri. Við náðum að lempa þá til og sleppa yfir ána óskaddaðir. Við áttum nestisögn við Írafoss og héldum síðan sem leið lá hefðbundna slóð. Það var ósköp notalegt að sjá að ódáinsvöllum Nesjavalla þegar komið var fram á síðustu hæðarbrún. Alls taldi mælirinn 72 km þegar í hlað var komið. Við fengum að fara í sturtu og síðan í pottinn með góðan bjór okkur við hlið. Dönsk stúlka tók ljúflega á móti okkur og gerði það fyrir okkur sem mögulegt var.
Síðan héldum við heim, vel á okkur komnir með ósára og óstirða fætur og hinir kátustu eftir góðan dag.

Engin ummæli: