Tók 16 km í gærkvöldi. Maður reyndi að finna afsakanir fyrir að fara ekki út í heldur leiðinlegt veður en þar sem þær reyndust allar léttvægar þá var vetrargallinn bara dreginn fram og farinn fínn túr á hefðbundnar slóðir. Það er nú einu sinni bara einmánuður ennþá þannig að hvað er maður að kvarta. Bara að það sé ekki rigning eða slydda, þá er þetta í lagi.
Þegar ég kom undir brúna í Elliðaárdalnum var þar fyrir hópur vel stálpaðra stráka eða ungra manna, einir sex held ég. Þeir voru þar í heldur hæpnum erindagjörðum eða að mála veggjakrot á veggina í undirgöngunum. Ég stoppaði hjá þeim og fór að spjalla við þá og lýsti skoðun minni á svona kroti, það væri yfirleitt heldur ljótt og leiðinlegt. Þeir sögðu að krot annara væri vissulega ljótt en þeir væru vandvirkari. Ég fór yfir aðgerðir borgarstjórans í New York með þeim þar sem hann byrjaði á baráttu gegn veggjakrotinu þegar hann hóf baráttu sína gegn glæpum í borginni. Það tók sex ár. Einhverjir strákanna þekktu til sögu borgarstjórans en höfðu ekki áttað sig á að veggjakrotið voru fyrstu smáglæpirnir sem hann tók á. Ég bað strákana að hugsa málið aðeins betur þegar ég yfirgaf þá í mestu vinsemd. Þeir voru vafalaust betur viðbúnir því að ég hefði farið að hreyta í þá skít og skömmum en voru síður búnir undir málefnalegar samræður um borgarstjórann í New York.
Fór í gærdag til Arnar nálastungumanns á Hrísateignum. Hann kann margt fyrir sér og hefur reynst mér vel. Ég hef undanfarið fundið fyrir verk efst á hægra fætinum þar sem hann kemur up í mjaðmagrindina. Ekki náð að hafa hann úr mér með teygjum. Eftir vettvangsskoðun þá fann Örn út að vinstri hluti mjaðmagrindarinnar væri stífari en hægri hlutinn og það kæmi fram í ofálagi á vöðvann hægra megin undir miklu álagi. Hann raðaði í mig prjónum um stund og spilaði indverska slölkunartónlist undir og síðan hófst hann handa með að hnoða og teygja. Ég hélt stundum að hann myndi slíta mig í sundur en það slapp allt til. Fer aftur í næstu viku og vona að það dugi. Hann er fínn.
Þegar ég fór til hans fyrir tveimur árum hittist þannig á að á sama degi var ég búinn að lofa lögmanni sem var að verja mál að bera vitni gegnum síma. Síðan er það að þegar Örn er búinn að raða nálum í mig og ég ligg hálfsofandi á maganum þá hringir síminn og lögmaðurinn mættur með sínar spurningar. Ég þurfti þá veskú að standa klár á að svara bæði sækjanda og verjanda í gegnum símann, liggjandi á maganum eins og nálapúði með bakhlutann fullan af nálum. Það hafa varla margir verið í þeirri stöðu í vitnastúku. Málið tapaðist í undirrétti en vannst síðan hæstarétti.
Búið að ákveða að selja Símann. Fagfólk sem ég tek mark á hefur aðeins efasemdir um hvort söluferlið sé nægjanlega gagnsætt. Ég þarf að skoða málið betur til að mynda mér skoðun á því. Margir eru á móti þessu, sérstaklega íbúar úti á landi. Mikilvægt er að skýr stefna sé mótuð hvað varðar uppbyggingu dreifikerfis í landinu svo og hvað varðar skyldur þeirra sem kaupa símann. Mikið hefur breyst í viðhorfum manna gagnvart aðkomu ríksins að atvinnurekstri í landinu á liðnum áratugum. Ég minnist þess að þegar BSÍ var seld fyrir um 25 árum þótti manni það heldur hæpinn gjörningur svo dæmi sé nefnt. Í dag myndi manni finnast það fáránlegt að ríkið væri að reka miðstöð fyrir hópferðabíla.
miðvikudagur, apríl 06, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli