þriðjudagur, apríl 26, 2005

Ferðin til Krakow var mjög skemmtileg. Þetta er svona hefðbundin borgarferð en alltaf gaman að koma á slóðir sem eru manni kunnar. Krakow er ein af fáum borgum Póllands sem ekki varð fyrir miklum skemmdum í stríðinu. Því stendur gamli borgarhlutinn eins og hann var byggður upp fyrir hundruðum ára. Samkvæmt alþjóðlegum ferðamannastaðli er hann einn af 1000 eftirtektarverðustu ferðamannastöðum í heimi. Matur er mjög ódýr í Póllandi en afar góður. Veitingahúsin eru fín og gæðin mikil. Eini staðurinn sem féll ekki undir þessa skilgreiningu var veitingahús í gyðingahverfinu þar sem maturinn var helmingi dýrari en annarsstaðar og einnig töluvert mikið verri. Þar spilaði þriggja manna hljómsveit undir matnum og síðan kom á reikningnum 3 x muzica eða þrír skammtar af tónlist. Ég sá eftir því að hafa ekki farið að prútta við þá og segja að ég væri heyrnarlaus á öðru eyranu og fá þannig afslátt!! Í Krakow eru flestar kirkjur á fermeter í Evrópu og kannski þótt víðar sé farið. Það var hver stórkirkjan við hliðina á annarri. Manni var óglatt að sjá prjálið sem er í þeim. Þeir vor afar stolti af Jóhannesi Páli en það er spurning hvort rottvælerinn vekur sömu tilfinningar hjá þeim. Þýskur ofsatrúarmaður með nazi fortíð sem páfi, ésús minn. Svo er strax farið að finna upplýsingar þar sem kemur fram að hann hafi hvatt biskupa í USA til að hilma markvisst yfir barnanauðgurunum. Það var greinilega mikið að gerast í Krakow, mikið af nýjum og stórum byggingum og almennt að sjá að þarna væri allt í heldur góðum gangi.Samkvæmt upplýsingum frá EU er yfir helmingur af þróunarsjóðum sambandsins til Póllands. Á föstudaginn keyrðum við að verksmiðju Schindlers (Schindlers list) og að gyðingahverfinu. Þar var um 100.000 gyðingar múraðir inni í smá gettói í stríðinu áður en þeir voru flestir sendir í útreymingarbúðir. Nú búa þar um 200 manns. Eftir gerð myndarinnar um Schindler fór ferðamannastraumur í þennan borgarhluta að vaxa og viðskiptin að aukast. Við fórum á laugardaginn til saltnámanna í Wilesilava (nokkurn veginn). Þær eru afar merkilegar. Þar hefur verið unnið salt í amk 1000 ár og námurnar verið opnar fyrir ferðamenn í fleiri hundruð ár. Það er stytta af Kóperinikusi í námunum en hann heimsótti þær rétt áður en hann gaf út bók sína um gang himintungla. Verkamennirnir hafa gegnum árhundruðin höggvið út skúlptúra í námunni sem eru orðnir stórkostlegt samasafn listaverka. Námurnar eru samtals nær 400 km langar en einungis lítill hluti þeirra er opinn ferðamönnum. Niður á 150 m dýpi er konsertsalur þar sem veggirnir eru t.d. alþaktir lágmyndum úr bíblíusögunum. Þrír bræður voru um 70 ár að fullgera salinn. Það tók um tvo tíma að fara ferðamannahringinn í námunum sem var hverrar mínútu virði. Á sunnudaginn var farið í ferð til Auswich - Birkenau. Það var dálítið önnur stemming þann daginn. Við manni blasti ein hryllilegasta setning sögunnar: "Arbeit macht frei" þegar gengið var inn í Auswich búðirnar. Það er voðalega erfitt að lýsa því hvernig er að fara um stað eins og þennan og ég held að ég reyni það bara ekki. Það þekkja flestir þennan hluta mannkynssögunnar en það opnar nýja vídd í skilningnum að koma á staðinn sjálfan. Birkenau liggur í um 3ja km fjárlægð frá Auswich búðunum. Þar var komið fyrir um 100.000 manns í ótrúlegum fjölda bragga sem byggðir vor bæði úr steini en eins úr einföldu timbri. Í hesthúsum sem áttu að rúma 50 hesta hvert var troðið inn um 700 manns í þrístöfluð flet. Í Birkenau voru um 90% fanganna send beint í útrýmingu en lífið pínt úr hinum í gengum þrælkunarvinnu og ótrúlegan aðbúnað. Við stríðslok var þessum búðum ekki eytt eins og Treblinka heldur standa þær enn eins og minnismerki um hryllinginn sem þarna átti sér stað. Það eru fleiri milljónir sem heimsækja þennan stað á ári hverju og nú er aðsóknin sérstaklega mikil sökum þess að um 60 ár eru síðan stríðinu lauk. Auswich búðirnar liggja um 60 km fyrir sunnan Krakow, rétt hjá landamærum Tékklands. Nú þarf maður að horfa á Sophias choice og Shindlers list til að skyggnast aðeins betur inn í fortíðina. Það væri gaman að koma aftur til Póllands og kynnast andinu aðeins betur. Það er með Pólland eins og öll þessi austurevrópsku lönd að sagan sem þar er fyrir hendi er manni að mestu leyti hulin en afar fróðlegt að fá örlitla ínnsýn í helstu höfuðdrætti hennar.

Engin ummæli: