fimmtudagur, apríl 28, 2005

Hefðbundinn hringur í kvöld upp á 16 km. Veðrið er eins og það á að vera á hörpunni, milt og lygnt. Ég tek svipaðan hring á morgun og svo verður dagshvíld fyrir Þingvelli. Það verður farið rólega og gengið upp brekkur. Fyrst og fremst skilar það uppbyggingu á andlegu hliðinni, að venja sig við að vera 7 - 8 klst á hlaupum samfleytt, borða í hlaupinu og fleira sem leggst inn á reynslubankann.

Skrapp smástund yfir í Ferðafélag í kvöld. Hjörleifur Guttormsson var að kynna nýju Ferðafélagsbókina. Hann var góður fyrirlesari eins og ætíð og þær myndir sem ég sá voru afar góðar. Ég held að það sem Hjörleifur veit ekki um austfirskt landslag er ekki þess virði að vita það, hann veit allt sem máli skiptir.

Skoðaði vef Mannréttindaskrifstofu Íslands út af þeirri umræðu sem hefur verið um að ríkið lét skrifstofuna ekki fá fjármuni í ár eins og fyrri ár. Mér fannst ýmislegt stinga í augun. Af hverju er biskupsstofa þarna en ekki ásatrúafélagið eða kaþólski söfnuðurinn? Af hverju eru Samtökin 78 í þessum hóp en ekki félag einstæðra feðra svo annað dæmi sé nefnt? Ég sá á þeirri umfjöllun sem umsókn Háskólans á Akureyri fékk áður en hann var samþykktur inn að það var ekki sjálfgefið að taka nýja aðila inn í hópinn. Ég ætla ekki að fullyrða neitt en það vöknuðu ýmsar spurningar við að skoða sig um á síðunni.

Það vekur furðu að díselolía eigi að verða dýrari en bensín þegar þungaskatturinn verður settur inn í lítraverðið í sumar. Allstaðar erlendis þar sem maður hefur séð verðlagninguna þannig framkvæmda er líter af dísel svona 10% ódýrari en bensín. Þetta er alveg gaga ákvörðun ef það verður niðurstaðan að díselinn verði dýrari en bensín. Ef einhversstaðar er verjandi að hafa neyslustýringu í gegnum skatta er það á þessu sviði. Þá færu menn kanski að kaupa dísel fólksbíla hérlendis en ekki verða þessi ósköp til að örfa það. Bölvað rugl og nauðsynlegt að berja svona hugmyndir niður.

Engin ummæli: