Þar sem ekkert var hlaupið í gær vegna veðurs þá var bætt úr því í dag. Átta km. í morgun upp úr kl. sex og síðan 12 í kvöld. Þá var skammturinn kominn. Það er rosalega gaman að hlaupa um þessar mundir. Veðrið eins og það getur verið best og þolið er allt að koma. Manni finnst maður líða áfram áreynslulaust. Ég held að ég sé á mun betra róli nú en í fyrra en var þó í ágætis formi í janúarlok í fyrra. Innistæða síðasta árs er greinilega ekki alveg uppurin.
Fæór í kvöld á fund með Rótarýklubb Reykjavíkur Breiðholt í kjallara kirkjunnar í Mjödd. Eftir þorramatarveislu í upphafi og venjubundin atriði Rótarýmanna spjallaði ég um hlaupaferilinn, allar þær tilviljanir sem urðu til þess að þetta þokaðist svona koll af kolli og fór síðan yfir WSER, upphafið, æfingarnar og hlaupið sjálft. Síðan sýndi ég myndir frá hlaupinu og skýrði út það sem fyrir augu bar. Þetta var fínn fundur og mikið spurt að loknum myndunum. Þeim fannst svolítið athyglisvert að maður kominn á sextugsaldur (sem maður er óhjákvæmilega orðinn samkvæmt dagatalinu) skyldi halda út að hlaupa á annan sólarhring um fjöll og firnindi. Þetta er að hluta til spurning um getu en síðan er spurningin um vilja ekki síðri. Líklega dregur viljinn lengra. Í upphafi fundarins voru þeir að spjalla um að tilraunir hefðu verið gerðar til að fjölga í félaginu og hafði verið talað við ungt og miðaldra fólk á aldrinum 35 til 50 ára gamalt. Ég er líklega fallinn á tíma að fá inngöngu í svona klúbb.
Fékk blaðið Útivist í dag. Þaðer troðið af áhugaverðum greinum. Meðal annars var þarna viðtal við Vilborgu Örnu frænku mína. Hún vann það afrek í sumar að ganga á Eiger sem er herjans mikið fjall í svissnesku Ölpunum, fyrst íslenskra kvenna. Hún er dugleg og hefur virkilega fundið fjölina sína í fjallamennskunni. Gaman verður að fylgjast með henni í framtíðinni og mér kæmi ekki á óvart að hún ætti eftir að ganga á hærri og meiri tinda en Eiger í náinni framtíð.
mánudagur, janúar 30, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli