Setti nokkrar myndir inn á bloggið í dag sem gefa smá yfirlit um áfanga síðasta árs. Það var gott hlaupaár og eftir situr reynsla sem verður gagnleg á næstu árum. Þegar ég sé þetta í samhengi þá bregður Pétri Reimarssyni og Halldóri Guðmundssyni mjög oft fyrir. Við héldum mikið sjó saman framan af árinu þegar æfingar stóðu sem hæst. Það er mjög gott að hafa slíkan félagsskap sem bæði hvetur til dáða, veitir aðhald og einnig lærir hver af reynslu hins. þegar ég horfi til baka þá finnst mér hvíldarvikan (fjórða hver vika) kannski vera mikilvægari en maður gerði sér grein fyrir í upphafi. Þegar komið var á þriðju viku í erfiðum æfingum fór mann að hlakka til að geta tekið það aðeins rólegar en síðan að henni aflokinni fór mann aftur að hlakka til að herða á æfingum aftur og svo koll af kolli. Ég hef einnig þá trú að svona skipulagðar hvíldir með stífum æfingum dragi úr hættu á álagsmeiðslum.
Var að glugga í bók sem ég á þar sem gefið er gróft yfirlit um hvernig á að haga æfingum á hinum ýmsu stigum. Á uppbyggingarstiginu þurfa löng hlaup að vera svona 60% tímans, þrekæfingar svona 30% og intervallæfingar svona 10%. eftir þessu skal unnið næstu þrjá mánuði, sé miðað við níu mánaða prógramm. Það er fram í marslok. Næstu þrjá mánuði tekur við næsta stig sem eru langhlaup um 55% tímans, þrekæfingar svona 5%, intervallæfingar um 30%, sérstakar hraðaæfingar um 5% og keppnir um 5%. Þessu stigi lýkur í júnílok. Ég hugsa að það sé skynsamlegt að skrá hjá sér tímann einnig sem fer í mismunandi æfingar en ekki einungis vegalengdina.
Það er ekki oft að maður lesi bækur sem maður getur ekki lagt frá sér. Það gerðist þó með Da Vinci lykilinn í vetur eftir Dan Brown. Það er frábær bók. Ég las síðan Engla og Djöfla og varð ekki eins hrifinn. Á gamlársdag fékk ég bókina Blekkingaleikur eftir Dan Brown lánaða. Hún greip mig sömu heljartökum og Da VInci lykillinn. Það er bara ekki hægt að leggja hana frá sér ólesna. Hvergi bláþráður á spennunni. Mæli með henni.
Tek undir með þeim sem hafa látið þau orð falla að ef svokallaðir ráðamenn þjóðarinnar hafa ekkert að segja þá eigi þeir frekar að þegja. Það er satt að segja hálfpínlegt að horfa á forsetann lesa af lesvélinni með uppskrúfuðum leikrænum tilburðum og halda að það sé þetta sem þjóðin vilji. Margrét Danadrottning les bara beint af blöðum og spjallar við þjóð sína á tilgerðarlausan hátt. Maður bar virðingu fyrir Kristjáni Eldjárn og þótti vænt um Vigdísi. Hvorugar tilfinningarnar vakna þegar maður horfir á Ólaf Ragnar flytja áramótaávarpið. Ég kann satt að ssegja ekki við að segja hvað maður hugsar. Ég er þó alls ekki að segja að honum sé alls varnað. Hann mætti bara tjúna sig dálítið niður. Það er bara lágmark í allri ræðumennsku að áhorfandinn fái það á tilfinninguna að ræðumaður trúi því sjálfur sem hann segir.
mánudagur, janúar 02, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli