sunnudagur, janúar 29, 2006

Rok og rigning í morgun. Því var útihlaupi sjálfhætt því ég hafði ekki áhuga á að forkælast. María fór að keppa á Stórmóti ÍR í laugardalnum í morgun og deginum var eytt þar að mestu leyti. Hún stóð sig vel en þar sem hún er á yngra ári í sínum aldursflokk er vitanlega við sterkar stelpur að eiga.

Eva er ekki venjuleg. Undirritaður glæptist á að vera 20.000 gesturinn á heimasíðuna hennar. Verðlaunum var heitið fyrir vikið og þau voru afhent í Laugum í morgun. Þau voru ekkert skorin við nögl. Rúsínumöndlupoki með fallegri slaufu og nett laglegt glerkúnstverk í snyrtilegum gjafapoka. Manni vefst tunga um tönn við svona myndarskap. Að afhendingu lokinni var tekin mynd til birtingar á heimasíðunni. Takk fyrir mig.

Niðurstöður prófkjörsins liggja fyrir. Sigurvegar skal óskað til hamingju. Margt situr eftir sem gefur tilefni til vangaveltna. Til dæmis sást þarna að boðberi illra tíðinda var skotinn. Þegar leigubílstjóri einn sá umgengni unglinga undir lögaldri inni á kosningaskrifstofu eins frambjóðandans og tók vídeómynd af því máli sínu til sönnunar, þá lagðist stór hluti fjölmiðlahersins á að reita hann ærunni með fullyrðingum um að hann væri bara að ganga erinda annars frambjóðenda og færi í raun viljandi með rangt mál. Sama sá maður inni á bloggsíðum þar sem fjallað var um málið. Eftir sitja spurningar. Eru þetta viðbrögðin sem maður má búast við að fá við að vekja athyglin á því sem miður fer í þessum málum? Maður hefur séð það gegnum árin hve hægt er að breyta hlutum með markvissri umræðu og aðgerðum til að sporna gegn unglingadrykkju. Þau viðbrögð sem sáust í fjölmiðlum og á öðrum stöðum undanfarna daga við umræddu tilviki vekja spurningar um hvort eitthvað hafi breyst í þeim efnum. Undarlegast af öllum voru viðbrögð þeirra skákfrænda Össurar Skarphéðinssonar og Hrafns Jökulssonar. Hvað skyldi liggja þar á bak við?

Engin ummæli: