Fór hefðbundinn hring í hverfinu í kvöld. Veðrið er eins og það getur best verið. Milt og logn. Þegar maður var að alast upp fyrir vestan var vanalega allt á kafi í snjó í janúar og þarf ekki lengra aftur í tímann en um og fyrir 1980 þegar ég var síðast þar á veturna. Nú er varla hægt að segja að það festi snjó hér sunnanlands á veturna.
Mikil umræða hefur átt sér stað um starfslokalaun fyrrverandi forstjóra Flugleiða. Upphæð starfslokasamninga er alltaf umræðunnar virði. Mér finnst hins vegar vera grundvallaratriði hvort starfsmaður er búinn að vera 20 ár í starfi eða 5 mánuði. Sá stjórnarformaður sem semur þannig við starfsmann að hann eigi skilyrðislaust kröfu á fimm ára launum hvernig sem starfslok ber að höndum eða hvenær þau gerast er ekki starfi sínu vaxinn. Á hitt ber einnig að horfa að hluthafar hafa fengið gríðarlega ávöxtun á hlutafé sitt á liðnum mánuðum. Bréfin hafa reyndar hækkað frekar en hitt eftir að þessi umræða fór af stað. Popúlistarnir eru strax farnir af stað. Jóhanna Sig. heimtaði að þessu fólki yrði refsað. Fréttamaðurinn sem talaði við hana spurði hvort það væri ekki hlutverk hluthafa. Jú, Jóhanna samþykkti það. Það er í mínum huga grundvallarmunur á hvort um opinber fyrirtæki er að ræða eins og Símann á sínum tíma (Þórarinn V) eða hlutafélög. Hlutafélög starfa eftir hlutafélagalögum og það er meirihluti hluthafa sem fer með völdin. Fréttamaðurinn sem spurði Vilhjálm Bjarnason hlaupara í Kastljósi í kvöld hvort ætti að breyta lögum þannig að auka völd minni hluthafa veit ekki mikið um hvað hún er að tala. Gott að breyta lögum þannig að hluthafafundur verði að samþykkja svona sérkjör. Þá er umræðan þá alla vega opin og gegnsæ.
Mér finnst hins vegar á engan hátt vera hægt að bera saman laun þess aðila sem engu hættir og ber ekki ábyrgð nema á sjálfum sér og þeim aðila sem brýtur nýjar brautir og leiðir fyrirtækið og reksturinn til aukinna umsvifa. Góðir stjórnendur eru gulls ígildi. Það er eðlilegt að greiða slíkum aðilum góð laun því þeir eru meðal annars grundvöllur framfara. Spurning hvar á að setja mörkin er síðan önnur umræða.
Hér á árum áður var uppi umræða í þjóðfélaginu um að launamunur mætti ekki vera meir en tvöfaldur. Gott ef ekki voru lögð fram frumvörp á Alþingi þess efnis oftar en einu sinni. Sem betur fer lentu þau´ætíð í ruslakörfunni. Maður áttar sig varla á þeirri hugsun sem býr að baki slíku nema um hreint lýðskrum hafi verið að ræða. Til hvers á fólk að mennta sig eða leggja sig fram í starfi ef ávinningurinn er sáralítill? Ég hef kynnst því hvernig ástandið var í Sovétríkjunum þar sem engu mæáli skipti hvernig fólk skilaði vinnunni vegna þess að ávinningur fyrir vel unnin störf var enginn. Það var ekki fögur sjón.
miðvikudagur, janúar 04, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli