fimmtudagur, janúar 19, 2006

Fór góðan hring í kvöld. Nú voru broddarnir teknir með og veitti ekki af því.

Sá á norskum hlaupavef að það hlupu 91 norðmaður ultrahlaup í fyrra og þótti gott. Alls hlutu 60 manns eitt ultra en 31 hlupu fleiri en eitt, þar af 20 sem hlupu tvö hlaup, 7 hlupu þrjú, tveir sem hlupu fjögur, einn hljóp fimm og að lokum einn sem hljóp 7 ultra á árinu. Ultrahlaup er hlaup sem er lengra en hefðbundið maraþon.

Ég fór að velta fyrir mér hvernig við stæðum og niðurstaðan er harla góð miðað við frændur okkar norðmenn. Alls voru það 88 íslendingar sem hlupu formlegt ultrahlaup í fyrra, þar af hlupu 86 eitt og tveir hlupu tvö hlaup. Það voru 87 íslendingar sem hlupu Laugaveginn í ár sem er mjög vel gjaldgengt ultrahlaup og mun erfiðara en mörg önnur jafnlöng eða lengri sem hlaupin eru á sléttari braut. Síðan eru hin óformlegu hlaup eins og Þinvallavatnshlaup og Þingstaðahlaup svo dæmi séu nefnd en þau teljast ekki með þar sem ekki er um formlega tímamælingu að ræða.

Það má hins vegar segja að norðmenn standi okkur framar að tvennu leyti. Það eru fleiri sem hlaupa fleiri en eitt ultra á ári og þeir hafa úr fleiri hlaupum að velja. Við erum hins vegar á mjög góðu róli og allar líkur til að það fjölgi í hóp þeirra sem brjóta 100 K múrinn í ár. Einnig er Laugavegurinn alltaf að verða fjölmennari. Við þurfum hins vegar að fara að setja upp fleiri ultra hlaup. Það væri t.d. mjög gott að stíga næsta skref og setja upp 6 tíma hlaup. Það er mjög auðvelt. Það er til dæmis hægt að hlaupa það á slóðinni sem Pétursþonið var hlaupið á í fyrra. Það er eins auðvelt í framkvæmd og hægt er að hugsa sér. Eins mætti hlaupa fyrst tvo hefðbundna hringi frá Nauthól austur í Elliðaárdal og sem leið liggur vestur Sæbraut og vestur á Gróttu og enda síðan á Péturshringjunum til að geta mælt nákvæmlega hve langt menn eru komnir þegar sex klukkustunda bjallan glymur.

Sá sem getur hlaupið maraþon getur einnig hlaupið 100 km. Það er bara spurning um skipulagningu og skynsemi.

Engin ummæli: