Lífið er laukur. Fann í gærkvöldi hvernig kvefið var að umkringja mig. Hálsræma og nefrennsli greðu vart við sig. Í slíkri stöðu er bara eitt að gera. Fara í ísskápinn og skera sér væna flís af feitum lauk, tyggja hann vel og vandlega og renna safanum rólega niður. Þetta svínvirkaði eins og venjulega. Eftir nokkrar mínútur var allt eins og átti að sér að vera. Ég sleppti hins vegar að fara út að hlaupa, það rigndi og ég vildi ekki láta slá að mér eef ég stæði höllum fæti.
Sá á heimasíðu WS að þeir voru búnir að birta sundurliðaða skráningu um þátttakendur í fyrra, hvar þeir voru í röðinni á hverri drykkjarstöð og á hvaða tíma þeir voru. Það er fróðlegt að sjá hvernig hlaupið þróast hjá ýmsu fólki sem maður kannast við nöfnin á. Ég hækkaði mig um ein 40 sæti á leiðinni frá Forest Hill í markið, bæði fór ég fram úr ýmsum og einnig gafst fólk upp á þessari leið. Kim Rasmussen var í kringum 100 sæti fram til Michican Bluff en í Forrest Hill sat hann í um klukkutíma til að safna sér saman og endaði í 213 sæti. Sama er að segja um Norðmennina, þeir voru frekar hraðir af stað eða í um 110 sæti nokkuð lengi framan af. Þeir enduðu hins vegar í um 280 sæti. Svipaða sögu er að sjá hjá fleirum sem hafa farið of hratt af stað en detta svo niður seinni hluta hlaupsins eða gefast jafnvel upp. Ég sé til dæmis að maður sem endar tveimur sætum á eftir mér að lokum er í 55 - 70 sæti mest allt hlaupið á meðan ég er í 240 - 280 sæti framan af og held mér síðan lengi í 180 - 190 sæti. Eitthvað gerist svo hjá honum að hann fer að detta niður í restina og þá hægist mjög hratt á mönnum en þá gat ég enn haldið tiltölulega jöfnum hraða. Það telur mikið í svona löngum hlaupum. Svo eru hinir alhörðustu sem tóku flugið í upphafi og halda góðum dampi alla leið.
Góður sigur hjá handboltalandsliðinu í gær. Serbarnir spiluðu mjög ruddalega eins og þeirra er von og vísa en kom fyrir ekki. Sá að fréttamaður Fréttablaðsins hafði enn verið æstur þegar hann skrifaði frétt af leiknum því hann sagði að Serbarnir hefðu reynt að berja íslendingana í harðfisk. Bara svo það sé á hreinu með fiskréttina í þessu samhengi þá lemur maður einhvern eins og harðfisk en lemur svo einhvern annan í plokkfisk. Kíkti á Danmörk - Ungverjaland í gærkvöldi. Danski markmaðurinn var mjög góður. Það verður spennandi í kvöld.
föstudagur, janúar 27, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli