Fór út kl. átta í morgun og tók slaufuna upp á stíflu áður en ég hélt út Fossvog og hitti þá Pétur og Halldór um níu leytið í Fossvogsbotni. Við tókum kúrsinn út fyrir Kársnes og yfir í Garðabæ. Tókum rennsli þar og héldum síðan til baka svipaða leið. Var alls þrjá tíma á ferðinni og náði um 30 km. Fínn dagur í sex stiga hita og logni. Um hádegið var haldið upp í Borgarnes í jarðarför Dóra frá Þverholtum. Hann var jafnaldri minn og lést á sunnudaginn. Hann fótbrotnaði illa á hálku uppi í Borgarnesi á fimmtudaginn var. Upp úr beinbrotinu fékk hann blóðtappa í lunga og dó á sunnudaginn. Svona gengur það til. Það veit ekki neinn hver er næstur. Þegar við ókum suður í roki og rigningu þá hrósaði maður happi yfir hinu góða veðri sem var í morgun.
Horfðum á vígslumótið í Frálsíþróttahöllinni í sjónvarpinu. Góður árangur náðist í ýmsum greinum og gaman að sjá öfluga íþróttamenn keppa við hinar frábæru aðstæður sem komnar eru upp. Vonandi verður þessi framkvæmd til að iðkendum frjálsra íþrótta fjölgar. Ekki mun af veita. Þrettán til fjórtán ára krakkar kepptu þarna í 800 metra hlaupi. Gaman fyrir krakkana að spreyta sig á alvöru mótinu. Það kemur að því fyrr en síðar að þau verða komin í aðalhlutverkin. Sáum okkur til undrunar í sjónvarpinu að María Rún var skráð til keppni í átta hundruð metrum. Það hafði ekki nokkur maður haft sambandi við okkur þannig að María fékk að horfa á stöllur sínar etja kappi við hver aðra og gat bara ímyndað sér að sjá sjálfa sig þar á meðal.
Tölur úr prófkjörinu eru farnar að birtast. Það voru athyglisverðar niðurstöður sem birtust í fyrstu tölum sem voru úr utankjörstaðaatkvæðum. Kristinn H. skrifaði hvassa grein í Mbl. í morgun. Hann er þar að svara árásum sem hafa birst á hann í fjölmiðlum að undanförnu. Ég spái því að þessi umræða sé ekki búin og kannski bara rétt að byrja. Spennandi tímar framundan.
laugardagur, janúar 28, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli