Fór út fyrir 10 í morgun niður í Laugar. Hitti vini Gullu í fyrsta sinn á árinu. Tókum góðan hring í gegnum Fossvoginn og út að Nauthól og niður í Laugar aftur og þaðan heim. Tók samtals rúmlega 20 km í góðu veðri. Fín helgi að baki. Það eru margir að búa sig af kostngæfni undir átök komandi vors og sumars. Það verður gaman að sjá uppskeruna þegar hún liggur fyrir.
Ég minntist nýlega á að íþróttafréttamenn sinna götuhlaupum mjög lítið. Í besta falli eru t.d. birtar myndir af sigurvegurunum í Reykjavíkurmaraþoni og búið. Ég minnist þess að það varð gríðarlegt fréttaefni fyrir nokkuð mörgum árum þegar 64 ára gömul kona hljóp maraþon í Bretlandi. Fjölmiðlar gerðu úr henni stjörnu með viðtölum og mikilli umfjöllun. Í kjölfar þess greip um sig mikil stemming fyrir að hlaupa maraþon, því það urðu margir yngri sannfærðir um að þeir gætu klárað þetta fyrst 64 ára gömul kona gæti hlaupið þessa vegalengd. Þetta væri hægt að gera hérlendis. Nær sjötugur maður hljóp Laugaveginn í sumar á um 7 klst. Það vakti enga athygli fréttamanna en er þó gríðarlega gott afrek. Það var ekki minnst á það þegar Helga Björns vann sinn aldursflokk (50 ára og eldri) í Berlínarmaraþoninu fyrir nokkrum árum á gríðarlega góðum tíma. Líklega hafa fréttamenn ekki tíma til að sinna svona málum því þeir virðast vera uppteknir við að hringja út um alla Evrópu að vita hvort ákveðnir einstaklingar hafi setið á bekknum eða ekki í leik helgarinnar hjá því liði sem þeir spila. Oft eru birtar ekki fréttir eftir slíkar hringingar.
Sá umræðu í Silfri Egils um skattamál og hvort skattar hafi hækkað eða lækkað. Það er mjög afstætt hvort skattar hafi hækkað eða lækkað. Maður borgar hærri skatta með hærri launum. Aukinni verslun í samfélaginu fylgja auknar skattgreiðslur til ríkisins. Sveitarfélögin hafa einnig hækkað sína skatta á undanförunum árum. Það gerist í kjölfar þess að gerðar eru auknar kröfur til þeirra um meiri, betri og hraðari þjónustu. Nú er meðalútsvar nær því í botni. Það er 12,97% en hámarksútsvarsálagning má vera 13,03%. Maður sér á efni því sem frambjóðendur í prófkjörum senda frá sér að þeir ætla að bæta stórlega í þjónustu sveitarfélaga. Það á einnig að hækka laun verulega hjá mörgum hópum. Leikskólinn á að vera gjaldfrjáls fyrir notendur þjónustunnar, grunnskólinn á að vera gjaldfrjáls, tónlistarskólinn á að vera ókeypis, íþróttir eiga að vera ókeypis fyrir notendur þjónustunnar undir ákveðnum aldri. Almenningssamgöngur eiga að vera ókeypis fyrir þá yngri og eldri. Þannig mætti lengi áfram telja. Maður veltir fyrir sér hvaðan peningarnir fyrir allt þetta eiga að koma. Þeir verða ekki til í loftinu. Ef ekki verður möguleiki á aukinni skatthyeimtu hjá sveitarfélögunum þá verður það fjármagn sem þarf til að fjármagna þessa loforðalista tekið með forgangsröðun verkefna og niðurskurði á öðrum sviðum. Laun eru u.þ.b. 60% af öllum útgjöldum sveitarfélaganna. Niðurskurður kostnaðar þýðir þar með uppsagnir á fólki. Ég hef ekki séð lista yfir hvaða verkefni það eru sem verður að draga saman með tilheyrandi uppsögnum. Hvenær skyldi maður sjá stenfuskrá frambjóðenda sem lofar skattalækkun en óbreyttri þjónustu? Það þýðir með öðrum orðum að beita ráðdeild og sparnaði til að ná fram betri nýtingu þeirra peninga sem skattgreiðendur greiða í sveitarsjóði.
Þetta verður spennandi prófkjöra- og kosningavetur.
Man. Udt. spilaði við Púllarana í dag. Eftir jafnan og tiltölulega óspennandi leik náðu mínir menn að skora á 90. mínútu. Það var flott hjá þeim og gamli maðurinn var broshýr að leik loknum.
sunnudagur, janúar 22, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli