föstudagur, janúar 27, 2006

Það var þorramatur í hádeginu í vinnunni í dag. Það er alltaf sérstök stemming að borða þorramat, sérstaklega ef maður er ekki búinn að taka tvo þrjá bjóra á undan eða farinn að tjúnast upp eftir að hafa hlustað á minni karla eða kvenna með tilheyrandi tvíræðum bröndurum. Ég fór að hugsa um að það að borða þorramat er eins og að vera í rauðvínssmökkun. Vínin geta verið mismuandi góð en það er mikill munur á þeim innbyrðis en hvert hefur sinn sjarma. Maður tekur litla sopa, veltir þeim uppí sér og nýtur mismunandi keims og karakters. Svipað er þetta með þorramat. Maður á að borða þorramat hægt, varast að sulla saman mismunandi tegundum og njóta hvers bita eins og hann sé sá síðasti. Svo er maður að heyra eitthvað sjálfbirgingslið tala um að þorramatur sé skemmdur matur. Godbevares. Sviðasulta (tvær til þrjár tegundir), hrútspungar, hvalur ef vel ber í veiði, hangikjöt, súrsað kjöt, hákarl, harðfiskur, dísætt rúgbrauð með jafnþykkt af smjöri og síld og rófustappa með. Maður fær bara vatn í munninn að horfa á textann. Eini gallinn við þetta er að maður verður alltaf of snemma saddur.

Tók hringinn í eftirmiðdaginn eftir að hafa tekið frí í gær þannig að kvótinn stendur. Gott veður eða eiginlega blíða. Ég ætlaði að fara niður í Laugar að taka hraðaæfingu í nýja húsinu en lét það bíða vegna þess hve veðrið var gott.

Skemmtilegur leikur milli Dana og Íslendinga. Jafntefli var réttlátt. Danir komu sterkt til baka eftir að hafa lent illa undir framan af leiknum og síðan komu íslendingar sterkt inn í leikinn aftur eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. Gaman að sjá Arnór Atlason hanga í loftinu og hjóla með löppunum áður en hann lætur vaða. Alveg eins og pabbinn þegar hann var upp á sitt besta.

Það ehfur ýmislegt verið að pirra mann í kringum aðdraganda prófkjörsins sem fer fram á morgun. Læt allt varðandi það bíða þar til síðar. Það er stundum skynsamlegt að telja upp að tuttugu áður en maður talar.

Engin ummæli: