Ég ætla ekki að fjölyrða mikið meir um þetta sorglega Ísafjarðarmál en þó vil ég koma nokkrum hlutum á framfæri að lokum. Stundum þegar maður segir eitthvað í hita leiksins fer maður að hugsa um þegar frá líður hvort maður getir staðið við það. Ég hef hætt ýmsu gegnum tíðina, s.s. að drekka kaffi, reykja og drekka kók og síðan reyndar gos almennt. Það hefur allt verið mjög auðvelt. Nú ætla ég að hætta að lesa DV. Þá fer maður að hugsa, á eg aldrei eftir að lesa DV, ekki einu sinni pínulítið, það er dálítið stór tilhugsun. Þá fer maður að hugsa um hvernig DV verður til með hliðsjón af umræðu síðustu daga.
Mín myndbirting er svona: Ég sé fyrir mér Jónas gamla liggja á gluggum hjá fólki, tuðandi og sviðrandi: "Sannleikurinn verður að koma í ljós, ég verð að sjá allt því sannleikurinn verður að koma í ljós". Á bak við hann stendur Breiðholtsdelinn og öskrar: "Finnið einhverjar focking fréttir" Mér finnst þetta ekkert sérstaklega skemmtileg sjón. Að losa sig undan áhrifavaldi þessara manna og segja "Þið ráðið ekki yfir mér lengur" er næstum eins og að hrista af sér illan anda eða setja niður draug. Að hafa ritstjóra DV nálægt sér er eins og að hafa Þorgeirsbola öskrandi fyrir utan tún. Þú veist aldrei á hvern hann ræðst næst.
Nú er fokið í flest skjól fyrir Jónasi gamla. Fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar og meintrar kynferðismisnotkunar koma fram hvort á fætur öðru og taka afstöðu gegn DV og ritstjórum þess sem sögðust vera málsvarar þeirra. DV eyðilagði það fyrir drengjunum fyrir vestan að hafa möguleika á að ná fram réttlátri niðurstöðu. Það er nú öll brjóstvörnin. Heyra síðan hvernig blaðasnápar DV hafa hamast á dyrunum hjá þessum drengjum og fjölskyldum þeirra eins og blóðhundar, gjammandi og ýlfrandi af æsingi yfir að ná í eitthvað bitastætt.
Mér var sagt frá frétt í DV síðan í gær held ég um mann sem ég kannast við að norðan sem sagt var að hefði haft klámmyndir inni í tölvu hjá sér. Birt er mynd af honum í blaðinu, starfsheiti og upplýsingar um búsetu. Festur upp frammi fyrir alþjóð. Hengdur án dóms og laga hét þetta í Villta Vestrinu. Málið er sagt í einhverri skoðun. Hvurn fj... varðar mig um hvað er verið að skoða hjá honum? Bara ekki nokkurn skapaðan hlut. Mér myndi hins vegar þykja það frétt ef hann væri dæmdur í steininn fyrir einhver afbrot en annað varðar mig bara ekki um.
Ég hef áður ráðlagt fólki ef það á leið í bókabúð eða bókasafn að leita upp ritverk Mikaels Torfasonar og glugga í það sem hann er að dunda sér við að setja saman og kallar svo bók, samtímasögu eða einhvern skrattann annan. Það er ítrekað hér með. Ég velti stundum fyrir mér hvernig þeir menn eru innréttaðir sem fá lífsfyllingu við að setja saman svoleiðis texta. Spyr sá sem ekki veit.
Gerði í dag óformlegan samning við Puma um hlaupaskó. Ég hafði hugsað mér að reyna að létta á skókostnaðinum með einhverjum hætti og vona að það sé að nást. Fer nánar yfir það þegar málið er í höfn.
Nú er rútínan að festa sig. Þrjú styttri hlaup í viku og tvö lengri. Svona verður það í jan og febr. Nú koma broddarnir sér vel. Ætla svo að bæta við lyftingum til almennrar styrkingar.
fimmtudagur, janúar 12, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli