Engin hlaup í dag, vitlaust veður og leiðindi. Var hálf slappur og linur í vinnunni. Tók góðan skammt af Paratabs þegar heim var komið og er allur að koma til. Fékk Stöð tvö í gær. Maríu langar til að horfa á það sem eftir er af Idolinu. Fékk Skjáinn fyrir jól og sagði Sýn upp. Þegar tengja þarf tvo afruglara saman er ekki nóg að raðtengja þá heldur þarf að tengja þá saman og tengja síðan úr þeim seinni upp í sjónvarp. Ég þurfti þrjár hringingar upp á Stöð 2 til að fá þetta á hreint. Fyrri tveir vissu ekkert hvað þeir voru að tala um og eru þó kallaðir sérfræðingar. Sérstaklega vissi sá seinni ekkert í sinn haus. Nú er Stöð 2 örugglega búin að fá fjölda svona símtala áður og ég sé ekki hvað er flókið við að skrifa lausnina niður á blað og láta hana liggja á borðinu hjá því fólki sem gefur sig út fyrir að vera til aðstoðar þeim sem hringja út af svona vandamálum. Það er eins gott að tala við símsvara eins og menn sem hafa ekki annað til málanna að leggja en að segja manni að tengja afruglarann í loftnetið og svo í sjónvarpið. Kem þessu vonandi í lag á morgun.
Rakst nýlega á blogg Páls Ásgeirs, bróður Gísla aðalritara. Hann vann til skamms tíma í Dægurmálaútvarpinu á rás 2 og hefur gert það hvað best að gefa út frábærar leiðarlýsingar í bókarformi um jeppaslóðir á fjöllum. Nú sé ég að hann er að halda námskeið fyrir bakpokaferðalög. Gott framtak. Páll Ásgeir hefur verið að vandræðast yfir blaðbera Fréttablaðsins. Blaðið fær hann sjaldnar en skyldi. Nú síðast fór PÁ hins vegar að reikna úr hvað þessir grey blaðberar fá í laun. Það er ekki há tala. Ég held að það fólk sem hamast hvað mest í Kópavogi þessa dagana yrði ekki fallegt í framan ef það tæki laun blaðbera upp úr umslaginu fyrir fullan vinnudag. Að vísu hafa blaðberar ekki 3ja ára háskólanám!!!
Ég bar Fréttablaðið út um 2ja og hálfs árs skeið með stráknum mínum. Í upphafi hugsaði maður ekki svo mikið um þetta utan að vinna vinnuna og koma blaðinu og tilbehör til skila. Svo fór maður að hugsa og reikna. Það var ekki falleg niðurstaða úr þeim útreiknignum. Á þeim tímum gat maður talað við starfsmann ef ástæða var til að kvarta en nú skilst mér að það sé búið að setja símsvara í málið. Ég þurfti ósjaldan að beita þeim hrútshornum sem ég hafði tiltæk til að starfsmenn fréttablaðsins tækju mark á mér. Einna mest gagn gerði að skrifa í Moggann. Ég hef aldrei fengið álíka viðbrögð við neinu sem ég hef verið að tuða eins og því að vekja athygli á kjörum og vinnuaðstöðu blaðbera. Ókunnugt fólk hringdi, sendi mér email og jólakort og ég fékk viðbrögð frá kunnugum sem ókunnugum úti á götu. Einn var þó sá hópur sem lét eins og honum kæmi þetta ekki við. Það voru fréttamenn. Haustið 2003 var tekið við mig viðtal í sjónvarpinu. Sá ágæti fréttamaður sem það gerði fékk heldur betur símtalið og yfirhalninguna þar á eftir. Síðan létu fréttamenn eins og þeir vissu ekki af þessu þar til ég skrifaði grein í Moggann um sinnuleysi þeirra. Þá var ég kallaður upp í Dægurmálaútvarp. Ég hef enga löngun til að komast í útvarpið per se en málefnið var þess eðlis að mér fannst ástæða til að reyna að koma því á framfæri. Í mínum augum var þetta hreint barnaplageri. Hvað ætli vinnandi fólk myndi hugsa ef það þyrfti að hafa einhvern ættingja sinn með í vinnuna kauplaust til að klára verkin á tilsettum tíma því annars væri það rekið? Mér finnst ástæða þess að fréttamenn sinntu þessu ekki vera augljós. Svona er þetta bara hvað sem öllu fjölmiðlafrelsi líður.
Eftir þessa reynslu þá kvarta ég ekki þótt Fréttablaðið berist ekki dag og dag hingað í Rauðagerðið.
föstudagur, janúar 06, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli