sunnudagur, janúar 08, 2006

Morguninn byrjaði á flöskusöfnun hjá Víking og því fengu Vinir Gullu að víkja í þetta sinn. Eftir hádegi var tími fyrir sunnudagshlaupið og var því farið vestur á Eiðistorg og til baka eða rúmir 20 km. Veðrið var gott til að byrja með en svo fór að slydda og rigna. Það er heldur leiðinlegt veður, ekki síst í 0 oC.

Þegar maður er að hlaupa svona einn er gott að hlusta á útvarpið. Þá hlustar maður á margt sem maður gerði ekki að öðrum kosti. Ég byrjaði á því að hlusta á rás 2 en hún var leiðinleg með einhverju poppstagli sem var ekki fyrir minn smekk. Þá skipti ég á Latabæ sem er skárri með þessu venjulega íslenska poppi sem maður heyrir of sjaldan í útvarpinu. Eftir að hafa hlustað á Latabæ um stund skipti ég enn og aftur því eftir að hafa hlustað á syrpurnar í rúmlega eitt ár er maður farinn að þekkja sumar.

Þá lenti ég á fréttum hjá NFS. Þar var fréttamaðurinn Helgi Seljan að tala við Grím Atlason sem stóð fyrir konsert í Laugardalshöllinni í gærkvöldi til að mótmæla framkvæmdum á hálendinu. Grímur var ánægður með kvöldið og troðfullt hús og mikla stemmingu. Hans niðurstaða eftir kvöldið var að fólk væri búið að fá sig fullsatt á framkvæmdagleði stjórnvalda. Nú ber ég fulla virðingu fyrir skoðunum annarra og tel skoðanafrelsi eitt af grundvallaratriðum samfélagsins. Á hinn bóginn er ég ekki hrifinn af alhæfingum. Mig undrar ekki að það sé fullt í Laugardalshöllinni (sem tekur ekki nema 5000 manns) þegar Björk, Sigurrós, Mugison, Daimon Rice, KK, Egó og Bubbi og tugir annarra góðra tónlistarmanna koma þar fram. Ég hefði gjarna farið með krakkana ef það hefði verið möguleiki að fá miða. Það er ekki þar með sagt að ég hefði viljað láta nota mig í pólitískum tilgangi þótt ég hefði verið á staðnum. Fimm þúsund manns, það eru svona 1,7% þjóðarinnar. Hvað segir það? Mér finnst svona fullt þykkt skorið að alhæfa þann fjölda yfir á alla landsmenn.

Fréttamaðurinn Helgi Seljan var mjög hrifinn af þessu. Hann er líklega búinn að gleyma því að fyrir nokkrum árum arransearði hann konsert austur á Eskifirði með félögum sínum undir nafninu "Sökkvum Eyjabökkum". Sömuleiðis stofnaði hann stjórnmálahreyfinguna "Biðlistinn" sem gekk út á að gagnrýna seinagang við ákvarðanatöku um virkjanaframkvæmdir á Kárahnjúkasvæðinu og stóriðjuframkvæmdir í Reyðarfirði. Hann komst við annan mann í bæjarstjórn Fjarðabyggðar og barðist þar fyrir ákvörðun um virkjanaframkvæmdir og uppbyggingu stóriðjunnar. Síðan flutti hann í bæinn og snerist þá hugur. Þá var allt í einu vont að byggja virkjun við Kárahnjúka og stóriðju á Reyðarfirði í hans huga. Nú geta menn skipt um skoðun hvað pólitíska afstöðu varðar. Mér finnst það vera dálítið annað að berjast fyrir ákveðinni skilgreindri framkvæmd og ná árangri í þeim efnum. Þegar framkvæmdin er komin í gang og hún verður allt í einu vond í huga þess sama manns sem barðist fyrir henni þá finnst mér það annað hvort bera vott um ákveðna tvöfeldni eða einfeldni. Hvort er verra skal ég ósagt látið.

Ég skipti svo áfram áfram um stöð og hitti næst á Skugga Svein á rás 1. Ég hef aldrei hlustað á leikritið í heild sinni og það var býsna gaman að láta það rúlla. Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér að við krakkarnir höfðum sett upp lítinn þátt úr því þegar ég var í barnaskóla fyrir vestan, ca 12 ára gamall. Það var þátturinn sem gerðist á grasafjallinu. Kennarinn okkar hét Þorkell og hafði leikið Harald í Skuggasveini á sínum yngri árum. Það var eitt mesta sjarmörahlutverk leikhúsanna á þeim tíma. Lengi vel mundi ég ekki hvaða rullu ég hafði farið með fyrr en sultarríman kvað við í enda þáttarins. Þá rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað hafði ég leikið Gvend smala.

Að lokum hlustaði ég á umræðuþátt á Rás 2 sem fjallaði um meint ofurlaun og meintan vaxandi launamun í samfélaginu. Þar voru Ögmundur, Margrét Frímanns og Guðlaugur Þór. Spurt var hvort þau væru hrifin af hugmyndafræði Stefáns Jónssonar um að hafa hámarkslaun ákveðið hlutfall af lágmarkslaunum svo sem þrisvar eða fjórum sinnum hærri. Ögmundi fannst þetta náttúrulega vera alveg sjálfsagt, alla vega hjá hinu opinbera. Margrét og Guðlaugur voru sem betur fer með aðeins meira jarðsamband og bentu á að vitaskuld gengi ekki að hafa annað fyrirkomulag hvað þetta snerti hjá hinu opinbera og einkageiranum. Að öðrum kosti færi opinberi geirinn hallloka í samkeppni um starfsfólkið. Maður verður alltaf jafn hissa að heyra svona málflutning enda þótt það eigi ekkert að koma manni á óvart lengur. Lauk svo tveggja tíma hlustun á útvarpið í dag og var ýmislegt úr því sem hafði vakið mig til umhugsunar.

1 ummæli:

Björn Friðgeir sagði...

Var ekki heima í gær, er ekki enn hægt að koma flöskum niður í Vík, veistu?