sunnudagur, janúar 01, 2006

Fyrsti dagur ársins. Gærdagurinn leið hjá í góðum gír. Gamlárshlaup ÍR hefur verið einn af föstu punktunum á gamlársdag um margra ára skeið. Þetta er einn af hápunktum hlaupaársins, létt stemmning og góður áramótaandi. Metþáttaka var í hlaupinu eða hátt á fimmta hundruð manns. Veðrið var afar gott. Ég dreif Maríu með og skokkaði með henni alla leiðina. Fyrir nokkuð mörgum árum tók ég Jóa með en þá lá mér meira á og hljóp mitt hlaup og fór síðan til baka á móti honum. Þá var hann orðinn steinuppgefinn og mjög þyrstur, hafði farið fullhratt af stað enda bara níu ára. Þessi mistök geri ég ekki aftur, manni á ekki alltaf að liggja svo mikið á. María stóð sig vel enda þótt hún hafi ekkert verið að hlaupa langt, heldur bara byggt upp úthald í fótboltanum. Hitti meðal annars þá félaga Eið og Gottskálk. Eiður er mjög heitur fyrir því að taka löggildinu í ultrahlaupi á þessu ári. Svo er um fleiri. Góðar líkur á að fjölgi í félaginu.

Kíkti í heimsókn til mömmu eftir hlaupið.

Mér fannst RÚV setja niður á gamlársdag. Svo lengi sem ég man eftir hefur maður horft á íþróttaannál ársins á gamlársdag. Nú var ekkert svoleiðis á döfinni heldur var sýnt frá bresku golfmóti og Formúlunni. Sem betur fer gátum við horft á Man. Udt. leggja Bolton á meðan þessi ósköp gengu yfir en sama er. Mér finnst dapurt hjá RÚV að taka ekki saman yfirlit um hápunkta íþróttaársins.

Stórfjölskyldan kom til okkar undir kvöldið. Rjúpurnar góðu sem ég skaut fyrir vestan í haust voru bornar fram og runnu ljúflega niður ásamt ýmsu öðru góðgæti. Jól og áramót eru hefðir og venjur eins og ég hef áður minnst á. Ein af hefðunum er að horfa á áramótaskaupið. Vissulega er áramótaskaupið ekki eins mikill viðburður eins og hér á árum áður en sama er, maður vill fá sína áramótarevíu eins og góðan mat og flugelda. Öll fjölskyldan horfir saman á skaupið, ungir sem aldnir. Að vera fyndinn er vafalaust eitt það erfiðasta í leiklistarbransanum. Þar þarf að feta mjóa línu og er ekki öllum gefið. Á áramótaskaupinu hafa allir skoðanir og sýnist vissulega sitt hverjum. Oftast eru þau þokkaleg, stundum mjög góð en einstaka sinnum eru þau svo slæm að það gleymist ekki. Skaup Þórhildar Þorleifsdóttur fyrir nokkrum árum er t.d. eitt af þeim sem gleymist ekki fyrir leiðinlegheit. Guðný Halldórsdóttir stjórnaði einnig mjög ófyndnu skaupi fyrir nokkuð fleiri árum. Óskar Jónasson sló hinsvegar í gegn með frábærum revíum í tvö ár eftir Þórhildarósköpin. Ég átti ekki von á miklu frá Eddu Björgvinsdóttur. Hún brást mér ekki. Fyrirgangur og læti finnst mér ekki fyndið. Þegar stjórnendur geta síðan ekki leynt pólitískri andstyggð sinni á ákveðnum einstaklingum og umfjöllunin verður rætin og langdregin í stað hárbreittrar fyndni verður útkoman eins og upp er lagt með. Mjög auðvelt er að eyðileggja góðar hugmyndir með því að kunna ekki að hætta. Það var gert margoft í gærkvöldi. Ég hélt síðan að leikstjórar væru vaxnir upp úr því að halda að eitthvað sé fyndið með því að spóla atriðin á auknum hraða. Þetta þótti kannski fyndið í árdaga kvikmyndanna en afsakið að ég æli, það er það bara ekki lengur. Maður sér enn betur við að horfa á svona samsetning hvað Spaugstofuhópurinn er frábær að geta haldið úti vikulegum tuttugumínútna þætti vetrarlangt í 20 ár með góðum dampi og hafa aðeins viku til að undirbúa hvern þátt. Hér hafa menn hálft ár. Val á leikendum er síðan kapítuli út af fyrir sig. Það finnst kannski sumum passa að pakka börnunum sínum inn í svona revíur. Ég hef efasemdir um það. Ég varð feginn þegar þessum ófynda samsetningi lauk.

Gamlárskvöldinu lauk í mikilli veðurblíðu og með miklum ljósagangi. Vonandi hefur allt farið vel fram.

Nú er nýtt hlaupaár hafið. Rólegheit haustsins eru forbi en alvaran tekin við. Markmiðin á nýju ári eru eftirfarandi:

Mars: Marsmaraþon
Apríl: Lundúnamaraþon
Maí: 100 km í Odense
Júní: Mývatnsmaraþon
Júlí: Laugavegurinn
Ágúst?
Septemberlok: Langt hlaup í Grikklandi (ef allt gengur upp).

Ég stefni að því að vera kominn í toppform (á mína vísu) um mitt ár. Hlaupin fram að þeim tíma eru frekar hugsuð sem æfingahlaup heldur en til að ná hámarksárangri í þeim.

Æfingaplan:
Janúar: Ca 300 km
Febrúar: Ca 300 km
Mars: Ca 400 km
Apríl: Ca 400 km
Maí Ca 400 km

Sumarið ætla ég síðan að nota til að hlaupa löng hlaup og æfa hraða í bland. Hraðaæfingar er það sem ég hef vanrækt mest á undanförunum árum. Hef ekki ákveðið vegalengdir enn nákvæmlega. Esjan bíður einnig þegar fer að vora. Hún er náttúrulega luxus sem maður má ekki vanrækja. Ætla að hafa sama plan og sl. vetur framundir vorið eða að hlaupa langt um helgar (ld og sd) og fylla síðan vikurnar upp með skemmri hlaupum. Róleg vika fjórðu hverja viku. Þetta gafst vel sl. vetur og ég sé ekki ástæðu til að ætla annað en að það gangi vel í vetur í ár. Fram eftir vetrinum ætla ég að flétta saman löngum hlaupum og þrekæfingum til að byggja upp grunninn sem verður síðan byggt ofan á þegar líður nær vori. Ég þarf einnig að setja mér ákveðið prógram til að létta mig. Ég þarf að vera búinn að koma mér niður undir 80 kg um mitt sumar. Ég veit hvernig á að fara að þessu, þetta er bara spurning um aga.

Eitt er að setja sér markmið, annað er að ná þeim. Það er yfirleitt undir manni sjálfum komið ef ekkert óvænt setur strik í reikninginn. Auðvitað eru fyrirvarar vegna veikinda eða meiðsla. Það er bara eins og það er. Slíkt getur alltaf skeð. Þá er það bara þannig.

Tók Poweratehringinn, Hattinn og Grensássvegsslaufuna í fyrsta sinn um nokkurn tíma. Samtals 16 km. Góður dagur.

Engin ummæli: